mánudagur, 6. febrúar 2006

Ljenzherrann bíður nú eftir fólki að skoða íbúðina hans og þar sem hann er búinn að sparka óhreinum nærfötum undir rúm og fæla rottur og meindýr yfir til nágrannans hyggst hann nýta tímann þar til þau banka upp á til að segja ykkur sögu.

Þetta var eitt vetrarkvöld í París. Ljenzherrann var að spássera sjer til ánægju í einu af virtari hverfum borgarinnar og var að ganga frá sigurboganum niður Champs Elysées. Ljenzherrann var í ljómandi skapi, enda tiltölulega nýbúinn að koma við á virðingarverðu kreperíi og belgja sig út af pönnukökum með súkkulaði og banönum. Ljenzherrann dundaði sjer við að skoða í búðarglugga Parísar fínustu og dýrustu verzlana og virti fyrir sjer hátízkuvörur og annað glingur. Athyglisverðast þótti honum þó að fylgjast með því hvernig starfsmennirnir þar hlupu upp til handa og fóta þegar uppstrílaðar hefðafrúr gengu inn í verzlanirnar og meira að segja hundarnir þeirra fengu betri ummönnun og atlæti en nýríkur kaupahjeðinn í verzlun Sævars Karls.Ljenzherrann fylgdist með þessu og ljet sig dreyma um komandi tíma, þegar hann sjálfur væri orðinn vel stæður og mikils metinn og fengi jafnvel að eta sjervalið alifuglaket úr skínandi látúnsdalli. En upp úr þessum fallegu hugsunum vaknaði Ljenzherrann þegar hann heyrði öskur og læti í námunda við sig. Ljenzherrann, sem er mikill áhugamaður um öskur, varð ákaflega spenntur og sá fram á að honum gæfist jafnvel færi á að sinna þessu áhugamáli sínu.

þegar Ljenzherrann snjeri sjer við blasti við honum eitt úrhraka þeirrar þjóðar sem gerir svo listavel við hundana sína, útigangsmaður. Tveggjametrahár fransmaður og herðabreiður, óklipptur, órakaður og óhreinn. Ljenzherrann gat leyft sjer að vera hlessa í andartak, en síðan öskraði rumurinn aftur svo hárin stóðu á Ljenzherranum. Á þessum sekúndum sem Ljenzherrann sá úfinn dingla í kokinu á ruminum rann lífshlaup hans fyrir honum á örskotsstundu. Rumurinn snjeri sjer síðan við og öskraði á mann sem nálgaðist hann á harðahlaupum. Manninum brá svo mikið að hann kastaði frá sjer skjalatöskunni sem áður hafði sveiflast sem pendúll við síðu hans og tók sjer Karate-stöðu.

Engin ummæli: