fimmtudagur, 23. febrúar 2006
Þetta var eitt vetrarkvöld í París. Ljenzherrann var að spássera sjer til ánægju í einu af virtari hverfum borgarinnar og var að ganga frá sigurboganum niður Champs Elysées. Ljenzherrann var í ljómandi skapi, enda tiltölulega nýbúinn að koma við á virðingarverðu kreperíi og belgja sig út af pönnukökum með súkkulaði og banönum. Ljenzherrann dundaði sjer við að skoða í búðarglugga Parísar fínustu og dýrustu verzlana og virti fyrir sjer hátízkuvarning og glingur. Athyglisverðast þótti honum þó að fylgjast með því hvernig starfsmennirnir þar hlupu upp til handa og fóta þegar uppstrílaðar hefðafrúr gengu inn í verzlanirnar og meira að segja hundarnir þeirra fengu betri ummönnun og atlæti en nýríkur "athafnamaður" í verzlun Sævars Karls.Ljenzherrann fylgdist með þessu um stund en augun færðust smám saman frá frúnum fínu og að spegilmynd hans sjálfs í rúðunni, og brátt hvarf allt í móðu. Ljenzherrann sá sjálfan sig fyrir sjer koma spígsporandi frá Champs Elysées, í Burberry alklæðnaði og kúrekastígvjelum og með agnarlítið loðdýr í bandi, sem ætti sjer þó tilkomumeiri ættarbók en allir en allir Íslands -sen og -sted til samans (og jafnvel þótt Flygenring, Thors og Waathne fengju að fljúga með). Ljenzherrann sá fyrir sjer hvernig það að vera orðinn velefnaður kaupahjeðinn hafði breytt göngulagi sínu og hvernig múgurinn ruddi stíg í gegnum sjálfan sig fyrir þennan hefðarmann og hundinn hans. Ljenzherrann stikaði inn í virðingarverðustu sjóntækjaverzlun Parísarborgar og ljet sem hann tæki ekki eftir öllum þeim látum sem viðvera hans olli meðal kaupmanna og innanbúðardrengja. Ljenzherrann ljet fara vel um sig í hvítum leðursófa á meðan ský af sölumönnum mátaði á hann hátízkulonnjettur sem hann gaf til kynna hvort honum væru þóknanlegar með letilegri og torræðri úlniðshreyfingu. Á meðan sat hundkvikindið grafkyrrt á silkipúða, eins og grísk stytta á stalli og beið þess að sjer yrðu færðar nautalundir og San Pellegrino.En upp úr þessum fallegu hugsunum vaknaði Ljenzherrann þegar hann heyrði öskur og læti í námunda við sig. Ljenzherrann, sem er mikill áhugamaður um öskur, varð ákaflega spenntur og sá fram á að honum gæfist jafnvel færi á að sinna þessu áhugamáli sínu. þegar Ljenzherrann snjeri sjer við, blasti við honum eitt úrhraka þeirrar þjóðar sem gerir svo listavel við hundana sína, útigangsmaður. Tveggjametrahár fransmaður og herðabreiður, óklipptur, órakaður og óhreinn. Ljenzherrann gat leyft sjer að vera hlessa í andartak, en síðan öskraði rumurinn aftur svo hárin stóðu á Ljenzherranum. Á þessum sekúndum sem Ljenzherrann sá úfinn dingla í kokinu á ruminum rann lífshlaup hans fyrir honum á örskotsstundu og hann iðraðist fyrir þessa hjegómafullu dagdrauma og óskaði þess að hann muni yfirgefa þessa jörð fátækur, en sæll. Rumurinn snjeri sjer síðan við og öskraði á mann sem nálgaðist hann á harðahlaupum. Manninum brá svo mikið að hann kastaði frá sjer skjalatöskunni sem áður hafði sveiflast sem pendúll við síðu hans og tók sjer Karate-stöðu. Rumurinn öskraði þá að gamalli konu sem hafði hætt sjer of nálægt honum og strunsaði síðan reikull í burtu. Ljenzherrann fylgidst síðan með honum labba fram hjá stóru auglýsingaskilti, en þegar rumurinn sá spegilmynd sína í skiltinu kom í ljós að hann átti ýmislegt vantalað við sjálfan sig. Í gott korter stóð geðsjúki útigangsmaðurinn, hrópaði fúkyrði að spegilmynd sinni og hótaði henni ofbeldi með látbragði. Án þess að sættast að ráði við sjálfan sig skakklappaðist hann niður götuna og hvarf inn í almenningsgarð, þar sem hann hefur átt svefnpoka, og kanske rauðvínsflösku, falda undir trje.

Engin ummæli: