fimmtudagur, 19. janúar 2006

Prófessor fagurgali
Ljenzherrann var í gærkvöldi ræstur út á neyðarfund. Einn Ljenzherrrans lesenda leit um helgina stúlku eina svo forkunnarfagra augum að hann varð samstundis skotinn Amorspílu í hjartastað. Í samtali þessu tilkynnti hann Ljenzherranum að sín aumkunnarverða jarðvist yrði framvegis tileinkuð því einu að fanga hjarta þessarar stúlku og borga með henni lögboðna brunatryggingu af sameiginlegu og dæmigerðu miðstjettarheimili. En til þess að þessar fögru vonir gætu orðið að veruleika vantaði hann aðstoð frá "prófessor fagurgala" við að útbúa kynngimögnuð smáskeyti sem sömu náttúru væru gædd og pílur Amors.

Ljenzherrann varð að sjálfsögðu við þessari bón og var haldin neyðarfundur á bílastæðinu fyrir utan verzlunina "Hestar og menn". Ljenzherrann ljet lesandann rekja gang mála, allt frá fyrstu kynnum til líðandi stundar. Síðan skipaði hann strák út í óveðrið og bað hann að húka þar í hvarfi, enda eru smáskeyti ætluð í hjartastað ekki beinlínis hrist fram úr erminni. Eigi samskipti manns og konu í tilhugalífi að heppnast þurfa þau öðru fremur að einkennast af áhuga án ákefðar og gagnkvæmum skilningi á algeru skuldbindingaleysi á frumstigum málsins. Báðir aðilar verða fyrir alla muni að fela tilfinningar sínar að mestu fyrir hinum aðilanum, til að fylla huga hans hæfilegri örvæntingu, en opinbera þær þó í litlum skömmtum við heppilegar aðstæður til að viðhalda áhuganum. (Sýnd veiði, en ekki gefin.)

Eftir að hafa fengið að dúsa úti í fimbulkulda var lesendanum loksins hleypt inn í bílinn og á meðan prófessor fagurgali hjelt erindi sitt fór hann smátt og smátt að fá tilfinningu í útlimina, hvern af öðrum. Svo diktaði lesandinn nokkur smáskeyti upp eftir Ljenzherranum, sum voru send samstundis, en önnur bar honum að geyma uns jarðvegurinn hefði verið undirbúinn. Að þessu loknu var skutlaði Ljenzherrann honum heim og á leiðinni var Ljenzherrans heimsreisa til umræðu og í kveðju og þakklætisskyni leysti lesandinn Ljenzherrann út með beztu gjöf sem ferðalangi getur hlotnast, hugsanlegri streptokokkasýkingu.

Já! eftir sex klukkustundir mun Ljenzherrann yfirgefa landið og gera víðreist til frönsku Alpanna, með viðdvöl í Kaupinhafn og París. Skíði, snjóbretti, pölsemejsteren og franskar kartöflur, haldiði að það sje?????

Engin ummæli: