laugardagur, 14. janúar 2006

Ljenzherrann af Kaffisterkt er um þessar mundir að endurinnrjetta eldhúsið hjá sjer. Öll mál og efnisval miðar að sjálfsögðu að því að eldhúsið nái himneskum samhljómi og geti staðið sem listaverk eitt og sjer innan í þeim minnisvarða til heiðurs fallegrar innanhússhönnunar sem húsakynni hans jú eru.

Að sjálfsögðu getur slíkur heimsborgari, nautnaseggur og lífskúnstner, eins og Ljenzherrann af Kaffisterkt, ekki komist af án sómasamlegs rekka fyrir ljettvín Enda sendi Turkmenbashi, Ljenzherrans pennavinur, samstundis gondól af stað yfir Atlantshafið þegar hann frjetti þetta. Gondól þessi er hlaðinn sjervöldum sedrusvið og mannaður átta manna áhöfn sem skiptist á syngja ljóð Turkmenbashis og róa eftir fyrirfram ákveðnu kerfi. Reyndar fórust tveir menn, en það er ásættanlegur missir fyrir góðan vínrekka.Ljenzherrann hófst strax handa við að hanna fegursta vínrekkann í öllum heiminum, en átti svo enga flösku til að miða við. Ljenzherrann hafði nefnilega fundið svo mikla pressu á sjer sem Íslending undanfarna daga að til að lina þjáningar sínar og dreifa athyglinni hafði hann drukkið upp til agna allar byrgðir sínar af brenndum sem ljettum vínum. Síðan braut hann flöskurnar og trampaði berfættur á glerbrotunum, til að freista þess að lina þjáningar andans á kostnað hins veraldlega dufts. Ljenzherrann þurfti því að grípa til heimildaleitar á alnetinu til að finna stærð og lögun þessara guðaveigahulstra.

Eftir langt og strangt bóknám hefir Ljenzherranum lærst að nota sem mest af heimildum við vinnu sína. Í þessu tilviki treysti hann sjer þó ekki að notfæra sjer allar þær upplýsingar sem hin háæruverðugi Google leitarRobot gaf honum, enda engar upplýsingar gefnar um sársaukaþröskuld viðkomandi einstaklinga þannig að hægt væri að koma orðum í tölur.

Engin ummæli: