þriðjudagur, 20. desember 2005

Ljenzherrann er nú búinn í prófum og mun fagna því með því að birta mynd af nýkrýndri alheimsfegurðardrottningu:Ljenzherrans bíða nú koffeinfráhvörf eftir óhóflega kaffidrykkju undanfarna daga. Þjáist hann af skjálfta og ósjálfráða taugakippum, svo miklum að Ljenzherrann sveif um rúm sitt sem svifnökkvi síðastliðna nótt og olli sinni sjerstöku kærustu miklu ónæði. Greip hún að lokum til þess ráðs að fergja Ljenzherrann með því sem hendi var næst, sem reyndist vera hún sjálf. Ljenzherrans koffeinskjálfti reyndist því miður hafa sömu eigintíðni og gormakerfi rúmsins og orkan sem áður hafði farið í að láta Ljenzherrann svífa safnaðist nú upp þannig að á endanum voru þau farin að hoppa og skoppa sem á trampólíni væri. Ef einhver á Metadón, má hinn sami gjarnan gefa Ljenzherranum með sjer.

Engin ummæli: