föstudagur, 16. desember 2005

Ljenzherrann af Kaffisterkt fór í jólaklippinguna sína áðan, því auðvitað vill hann vera snyrtilegur á jólum. En fyrst örlítið um Ljenzherrann og klippingar almennt. Ljenzherrann af Kaffisterkt kallar nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum, en það sýndi hann og sannaði í Egyptalandi þegar hann settist í stólinn hjá arabískum rakara á götumarkaði í Aswan. Þar sem rakarinn talaði ekkert nema arabísku þurfti að grípa til táknmáls til að útskýra hvernig herraklipping Ljenzherrans skildi útfærð. Eftir talsverðar handabendingar hófst maðurinn handa og greip ryðguð skæri og skítuga greiðu af borðinu sínu.

Á meðan að Ljenzherrann var snurfusaður og snyrtur gekk arabi inn á rakarastofuna og sest í hinn rakarastólinn. Maður þessi var með vefjarhött sem hann tók af sjer og geymdi í kjöltu sinni á meðan klippingin stóð yfir. Varla voru skærin hætt að smella þegar vefjarhötturinn var kominn aftur á sinn stað og maðurinn rokinn út aftur til að reka erindi sín, nýklipptur og fínn.

En jæja, þegar Ljenzherrann mætti á hárgreiðslustofuna leit hann yfir föngulegan kvenskarann sem þar var önnum kafinn við að reyta hárið af viðskiptavinum sínum skv nýjust tísku. Ljenzherranum leist alveg ljómandi vel á þetta, enda voru þær hverri annarri myndarlegri (samt engar Unnur Birnur). Ljenzherrann gekk að afgreiðsluborðinu og tilkynnti komu sína. Afgreiðslustúlkan brosti og kallaði því næst inn í kaffistofuna að “hann væri kominn.” Ljenzherrann hugsaði sjer gott til glóðarinnar en draumurinn um notalega stund á meðan lagleg stúlka ljeki við hár hans hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar úr kaffistofunni kom stærsti kvenmaður sem Ljenzherrann hefur á ævi sinni sjeð. Ljenzherrann sá fram á það að verða klipptur með garðklippum, eins og hver annar runni, þar sem hann gat engan veginn ímyndað sjer að nokkur skæri gætu passað í þessar risavöxnu krumlur.

Í stað þess að flýja af hólmi settist Ljenzherrann í rakarastólinn og tröllkonan tók að stíga pumpuna eins og hún ætti lífið að leysa. Á endanum dingluðu lappirnar á Ljenzherranum í lausu lofti eins og hann væri fimm ára smástrákur að leika sjer að skrifborðsstólnum hans afa. “Á að taka mikið af því?” spyr hún og Ljenzherrann verður hálf hissa að heyra ekki rússneskan hreim. “Bara svona passlegan drengjakoll...” svarar Ljenzherrann sem var búinn að ákveða að vera ákaflega diplómatískur í öllu viðmóti, enda yrði honum sennilega breytt í músastiga ef hann færi að ybba gogg.

Skærin fóru af stað, Ljenzherrann lokaði augunum og reyndi að hugsa fallegar hugsanir. Að lokum var þetta yfirstaðið og Ljenzherrann fjekk fiðring í magann meðan honum var slakað niður úr háloftunum þannig að það hvein í rakarastólnum. Ljenzherrann þakkaði pent fyrir sig og tröllkonan fór aftur inn á kaffistofu.

Á leiðinni aftur upp í skóla varð Ljenzherranum hugsað til þess þegar hann uppgötvaði það í fyrsta skipti hvað hann væri orðinn gamall. Það gerðist einmitt í klippingu fyrir nokkrum árum, þegar Ljenzherrann rumskaði við að rakarinn ljet sjer ekki nægja að snyrta hnakkann, heldur var farinn að lauma rafmagnsklippunum innanundir bolinn og niður á bakið.

Engin ummæli: