fimmtudagur, 13. október 2005

Hin eina sanna ró.
Ljenzherranum af Kaffisterkt finnst stundum skrítið hvað hann lendir oft í furðulegum aðstæðum. Nýjasta rósin í hnappagatið er sú að þessa daganna fer hann fyrir hópi manna sem eru að rétta af háspennumöstur. Slíkt er gert með því að strekkja eða slaka á stögunum eftir atvikum og til mælinga er Ljenzherrann er vopnaður hornamæli svokölluðum, sem hann umgengst af auðmýkt.

Á meðan Ljenzherrann gerir mælingar sínar stendur skrúflyklasveit hans blýsperrt og bíður í ofvæni eftir tilskipunum frá meistara sínum og andlegum leiðtoga. Valinn maður er í hverju rúmi og Ljenzherrann hefur gætt þess vandlega að hlutfall örvhentra og rétthentra sé sem jafnast svo sveitin sé skipuð sjerhæfðum mönnum til að skrúfa bæðil rjett- og rangsælis. Einn þessara manna var ráðinn vegna aðdáunarverðrar fimi með fastan lykil númer 42. Þessi kraftaverkamaður, sem hefur ferðast um allan heiminn og losað rær númer 42 sem aðrir hafa gefist upp á, kemur frá Marokkó og talar reiprennandi arabísku, en fátt annað. Hann blandar því litíð geði við íslenzku verkamennina sem hjala allan liðlangan daginn um veðrið eða þá tíð þegar sígaretturnar kostuðu þrjúhundruðogsextíu krónur. Nei, Marokkómaðurinn setur á sig heyrnarskjól og bíður þess að til hans sé leitað, hann bíður þess að hann finni hina einu sönnu ró, ró númer 42, svo ryðgaða og fasta að enginn fái hana losað nema hann með gullslegna lukku-42mm lyklinum sínum, sem hann skilur aldrei við sig ef ske kynni.

Loks kemur kallið frá Ljenzherranum! "Herða tíu snúninga á aftara-hægra aðalstagi og slaka fimm snúningum af því vinstra, kannið strekkinguna og í guðanna bænum færið mér eitthvað að drekka!!!" Viðbrögðin láta ekki á sjer standa, eins og fílahjörð ræðst Ljenzherrans skrúflyklasveit til verks með keðjustrekkjurum og risastórum skiptilyklum. Það er mikill handagangur í öskjunni og kliðurinn í skröllunum minnir helst á þúsund graðar karlkyns engisprettur sem eru að keppa um athygli síðustu kvenkyns engisprettunnar á jörðinni.

Látunum linnir ekki fyrr en Ljenzherrann sest í lótus-stellinguna, en það þýðir að mastrið sje komið í lóð. Þá sest skrúflyklasveitin í hring í kringum andlegan leiðtoga sinn, sem miðlar þá af vizkubrunni sínum eða fræðir þá um kaffiuppskeruna í Nýju-Gíneu. "Ef þið lendið einhverntíman í því að þurfa að splæsa, þá eru þrír snúningar öruggur vír, en það er vissara að snúa fjóra. Svo er það líka áhyggjuefni hve oft Cappuccino er skrifað Cappuchino, en þá breytist seinna önghljóðið úr tannbergsmæltu yfir í uppgómmælt og á ítölsku hljómar það ekki ósvipað og "kinka kolli"." segir Ljenzherrann, allt að því föðurlegur á svip. Hver einn og einasti skrúflyklasveinn tekur þetta til sín, kinkar kolli (capo chino) og reynir að heimfæra þessa vizku upp á lífshlaup sitt, Marokkómaðurinn fægir skrúflykilinn sinn.

Engin ummæli: