sunnudagur, 4. september 2005

Ljenzherrann af Kaffisterkt fær af því afbragðs skemmtan að spássera um og njóta sín. Bezt þykir honum svo að hafa meðferðis Desjár-mokka í hitabrúsa til að dreypa á. Hjer á Kárahnjúkum er nægt landrými til slíkrar útivistar og í einum af sínum lengri göngutúrum gekk Ljenzherrann fram á op ofan í jörðina.
Op þetta vakti samstundis forvitni Ljenzherrans og í brjósti hans vaknaði samstundis gamalkunn ævintýraþrá og vilji til að fara inn í göngin, á vit ævintýranna, og rannsaka hvort þar leyndust nokkuð skrímsl, góðmálmar eða framandsteinar.

Þegar Ljenzherrann hafði fullvissað sig um að hann hefði nægan Desjarár-mokka á brúsa sínum til að halda í slíka svaðilför lagði hann af stað ofan í jörðina. Ljenzherrann hafði gengið langa stund án þess að nokkuð hefði dregið til tíðinda þegar allt í einu fór að móta fyrir ljósagangi og skarkala framundan. Ljenzherrann fylltist hræðslu og forvitni í senn, enda ómögulegt að vita hvurskonar kynjaverur kynnu að leynast í iðrum jarðar. Ljenzherrann settist á lendar sjer og ákvað að hressa sig á einum rjúkandi bolla af ilmandi Desjarár-mokka áður en hann ákveddi hvað til bragðs skyldi taka.

Það þurfti ekki marga sopa af Desjarár-mokkanum til að efla hug og hjarta Ljenzherrans og þegar bollinn var allur var hann ekki einasta búinn að ákveða að halda áfram ferð sinni heldur einnig búinn að lofa sér að ráðast í ýmislegt sem hann hafði lengi trassað að koma í verk.


Ljenzherrann gerði sjer samstundis grein fyrir því að skjannahvítt hörund sitt væri sem glóandi rúbín í myrkrinu þannig að hann tók örlítinn slurk af Desjarár-mokkanum og hellti yfir sig, mikil eftirsjá var þó í hverjum dropa.

Kolsvört myrkraveran, sem Ljenzherrann var nú orðin, fikraði sig nú áfram í myrkrinu, liðugur sem Leikfimi-Hans, og eftir því sem hann færðist nær fór hann að greina hróp og köll á framandi máli í öllum hávaðanum. Ljenzherrann læddist nær og þegar hann beygði fyrir horn blasti við honum furðuleg sjón.

Engin ummæli: