laugardagur, 18. júní 2005

Ljenzherranum þykir fátt betra en að dreifa huganum með því að fylgjast með góðu instalasjón-stöðutákni í forriti (status bar) og mun hann seint fúlsa við slíkri skemmtan, nema þá helst ef tölfræðilegar upplýsingar um það hvernig veiruvarnarforritinu gangi að sótthreinsa harðadiskinn væru í boði á sama tíma.
Í eina tíð var tízka að unglingspiltar í Grafarvoginum eyddu frístundum sínum við tölvuleiki heima hjá Ljenzherranum, en fermingarpjeningum, sumarhýru sinni oh því fje sem Búnaðarbankinn hafði verið svo elskulegur að lána Ljenzherranum gegn fyrsta veðrjetti í fölsku tönnunum hennar ömmu hans hafði öllu verið sólundað í spánýja einkatölvu með ýmsum hlutum sem töldust til tækniundra á þeim tíma svo sem "hljóðkort!" "geisladrif!" "mús!" "hringaðri lyklaborðssnúru!" og hvaðeina.
Móðir Ljenzherrans var einnig fastur gestur á þessum samkundum, en hún staldraði þó aldrei lengur við en bara rjett til að skipa syni sínum að opna gluggan og bölsótast síðan út í þann dásamlega ilm sem fimm pungsveittir unglingspiltar með graðbólur geta af sjer, sjeu þeir læstir saman inni í lítilli kytru ásamt hátæknibúnaði af nýjustu sort.
Piltarnir höfðu af því skemmtan ágæta að fylgjast með fjelögum sínum aka sömu brautina 30 sinnum í röð í kappakstursleik en svo þegar Ljenzherrann ætlaði af sinni alkunnu gestristni að bjóða þeim upp á það besta og skemmtilegasta sem hann vissi um, hið stórkostlega grafíska notendaviðmót í disk defragmenter fussuðu þeir og sveiuðu, líkt og lyktarskyn þeirra hefði skyndilega farið að virka.
Og hvað kennir þessi litla saga okkur, jú, alls ekki neitt.

Engin ummæli: