sunnudagur, 10. apríl 2005

Ljenzherrann er á leiðinni til Affríku í sumar og þarf því bólusetningu. Ljenzherrann fór í dag ásamt samferðamönnum sínum í Heilsuverndarstöðina í Reykjavík í þeim tilgangi. Ljenzherranum hefir nú alltaf verið illa við sprautur. En það kastar fyrst tólfunum þegar það á að fara að dæla í hann fjórum sprautum af veikluðum eða dauðum sýklum ýmissa misgeðslegra sjúkdóma svo sem taugaveiki, kóleru, mýgulusótt, mænusótt, stífkrampa, barnaveiki, heilahimnubólgu, japanskrar heilabólgu, lifrarbólgu (allt stafrófið takk fyrir). Mikið er nú gaman að hafa þetta allt svamlandi inni í sjer, dauða sýkla, svífandi í þyngdarleysi blóðsins í leit að ævintýrum og hvítum blóðkornum.

Eftir að hafa hírst litlum og óvistarlegum biðsal kom bólusetjarinn loksins fram. Þetta var einn af þessum mönnum sem hafa mjög sterka nærveru. Í andlitum viðstaddra endurspeglaðist sú vitneska að þetta væri maðurinn sem ætti eftir að stinga þau með sprautum. Áður en athöfnin fór fram flutti doktorinn stuttan pistil. Í hvert skipti sem bólusetjarinn hreyfði sig snögglega kipptust mannhræðurnar til, eins og þau ættu von á því að hann myndi ráðast á þau skyndilega og stinga í þau öllum heimsins nálum. Pistillinn var ekki uppörvandi í eyrum þessara upprennandi Afríkufara. En bólusetjarinn bar þess merki að hann hefði af því sjerstaka ánægju af því að ræða hinar ýmsu smitleiðir lífshættulegra sjúkdóma og brosið á vörum hans breikkaði eftir því sem hlutirnir sem hann talaði um urðu ógeðslegri. Þegar pistlinum var lokið kallaði hann alla inn til sín, einn og einn í einu.

"Ljenzherrann af Kaffisterkt!"

Ljenzherrann gekk inn á stofuna og þegar hurðin lokaðist tók hjartað aukakipp. "Sestu á bekkinn og upp með ermar!" Ljenzherann gerði svo. Bólusetjarinn stóð við lítið borð og fitlaði við sprauturnar sínar. Virðing, ástúð og nærgætni skein út úr hverri hreyfingu.

"Þeir sem guðirnir elska, deyja ungir" sagði bólusetjarinn lágri og yfirvegaðri röddu. Síðan bankaði hann í eina sprautuna og bar hana upp að glugganum "nema þeir fái sprautu" bætti hann svo við með ánægjutón, tæmdi úr sprautunni loftið og gægðist á Ljenzherrann yfir gleraugun. Ljenzherrann leit taugaveiklingslega í kringum sig og spurði síðan hvort allir innfæddir fengju svona sprautur og hvað þeir gerðu eiginlega til að forðast þessa sjúkdóma. "Ekkert, þeir deyja bara!!!" Bólusetjerinn setti upp sitt breiðasta bros og hló duglega. Hláturinn var óþægilegur. Þetta var hlátur manns sem virtist sannfærður um að í sprautum sínum sínum leyndist það guðlega vald til að skilja á milli feigs og ófeigs á Afríkuslóðum. Þetta vald virtist hafa stigið honum til höfuðs. Að Ljenzherranum læddist sá grunur, að rjett eins og bólusetjarinn úthlutaði mönnum ódauðleika gegn banvænum sjúkdómum, tæki hann sjer einnig vald til að ákveða eftir eigin geðþótta hverjir yfirgæfu jarðlífið snemma.

Ljenzherrann skimaði í kringum sig í leit að sprautum með eitri. Ljenzherrann brosti vandræðalega og reyndi að hugsa út einhverja leið til að koma sjer í mjúkinn hjá bólusetjaranum, í þeirri von að hann myndi þyrma lífi sínu. Ljenherrann reyndi að brydda upp kurteisislegum samræðum.

"Hefurðu komið til Afríku?"

-"Já já, Affríka, já já, ég hef meira að segja komið til Tse tse eyja."

Ljenzherrann varð ánægður, hann sá fram á að geta bjargað lífi sínu með því að skora nokkur stig hjá bólusetjaranum með þekkingu sinni á farsóttum og smitvöldum.

"uh.. tse tse.. heita moskítóflugurnar ekki einmitt tse tse sem bera svefnssýkissmit???"

-"Jú", sagði bólusetjarinn og brosti. Hann horfði á Ljenzherrann yfir gleraugun sín og bætti svo við: "Þessar eyjar lögðust einmitt í eyði fyrir nokkrum árum vegna svefnsýki. "

Og svo hló hann.
Þegar hláturinn hafði lægt fann Ljenzherrann sting í hægri hendi. Ljenzherranum rann kalt vatn milli skinns og hörund. Var þetta bóluefni eða var þetta rottueitur, var hann bólusetjaranum þóknanlegur???? Mikil geðshræring greip Ljenzherrann og hann fór að brjótast um. Bólusetjarinn varð reiður.

Það næsta sem Ljenzherrann sá var andlit sinnar sjerstöku kærustu, sem var að sturma yfir honum.
"Þú fjellst í ómegin ljúfurinn!"
-"Sprautað´ann mig!!! Sprautað´ann þig!!! Upp með ermina!!!!"
Ljenzherrann taldi plástrana á upphandlegg sinnar sjerstöku kærustu. Einn, tveir þvír, fjórir. Ljenzherrann andaði ljettar. Síðan taldi hann sína eigin plástra. Þeir voru fimm.

Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir.

Engin ummæli: