laugardagur, 12. mars 2005

Ljenzherrann er sundkappi mikill og gætir þess sjerstaklega vel að allir sundlaugargestir taki örugglega eftir sjer þegar hann mætir í laugarnar. Athöfnin hefst jafnan á því að Ljenzherrann undirbýr sig andlega inni í búningsklefa með því að stara ógnandi á mynd sína í speglinum. Þegar hann er kominn í viðeigandi hugarástand færir hann sig í búninginn af mikilli kostgæfni. Búningurinn samanstendur af röndóttri sundhettu, sundgleraugum og sundbol fyrir karlmenn, sem hann fann á afviknum stað í sölu varnarliðseigna.

Þegar Ljenzherrann er kominn í múnderinguna virðir hann sjálfan sig fyrir sjer í speglinum með velþóknunarsvip. Hann spennir vöðva sína og finnst hann flottur. Síðan klæðir hann sig í froskalappirnar og arkar virðulega út í laug. Hann staldrar á laugarbakkanum til að gera teygju- og styrkleikaæfingar. Ljenzherrann er svo liðugur að þær stellingar sem hann kemur sjer í valda óhug meðal annarra sundlaugagesta. Að þessu loknu horfir hann til himins, þenkjandi á svip, og stingur sjer svo skyndilega til sunds með miklum bægslagangi.

Í sundlaugunum er Ljenzherrann er eins og hákarl í kóralrifi, hvar sem hann kemur skýst allt kvikt í felur. Hann fær jafnan að eiga bæði sundlaugina og heitapottinn út af fyrir sig. Hann er ánægður með þá virðingu sem honum er sýnd.

Í gær fór Ljenzherrann í "blúlagún" ásamt sinni sjerstöku kærustu. Ætlunin var að gera eitthvað "rómantisch" til að fagna hálfsársafmælis sambands þeirra. Ljenzherrann var ákaflega spenntur, enda hlakkaði hann mikið til að geta sýnt henni hvað hann væri fimur í vatni. Komið var kvöld þegar þau skötuhjú mættu í lónið, og myrkur í bland við gufu torveldaði sýn. Víðsvegar um lónið blöstu þó við pör af hausum af sitthvoru kyni. Hausarnir virtust fljóta á vatnsfletinum, eins og gúmendur, og litu allt eins út fyrir að hafa verið losaðir af eigendum sínum svo þeir gætu notið lystisemda þessa bláa vatns til fulls. Ljenzherrann, sem búinn er hugrekki ljónsins og siðgæði frá Viktoríutímanum, fór að skjálfa og hríslast um af ótta yfir því að búkarnir, sem leyndust ofan í gruggugu vatninu með sínar saurugu hugsanir, væru að stefna sálarheill þessara hausa í hættu með ósiðsamlegum athöfnum eða handapati á dónalega staði.

Það var um tvennt að velja, fara upp úr, eða gera eitthvað í málinu. Samvizkan leyfði Ljenzherranum hinsvegar ekki að flýja þessa gufusódómu. Ljenzherrann bjóst til orrustu. Hann setti upp sundgleraugun og fyllti lungu sín af lofti. Síðan dýfði hann sjer á vit ósómans í undirdjúpum Bláa lónsins.

Ljenzherrann kafaði um allt lónið eins og búrhvalur og kom aldrei upp, nema til að taka loft eða hrópa ókvæðisorð að þeim sem hann hafði grunaða um ósæmilega hegðan. Ljenzherrann var eins og óþekkur strákur í æðarvarpi, sem hleypur um og fælir kollurnar af hreiðrunum. Það var ekki mikið um nánar stundir milli elskenda í bláa lóninu þetta kvöldið, ef turtildúfur virtu ekki hina þriggja metra siðgæðisfjarlægð, tilskipaða af Ljenzherranum, máttu þær þola aðskilnað með valdi, kaffæringar og mikinn fúkyrðaflaum frá sama aðila.

Á meðan þessu gekk, sat Ljenzherrann sjerstök kærasta ein og yfirgefin á lónsbakkanum og var spæld á svipinn. Það virtist ekki ætla að rætast úr þessu kvöldi fyrir henni.

Engin ummæli: