þriðjudagur, 8. mars 2005

Ljenzherrann biðst forláts. Hann hefir afsökun góða. Hann var hnepptur í varðhald og fjekk að dúsa í einsmannsklefa.

Jæja hvernig stendur nú á þessu?

Ljenzherrann hefir eytt dögum síðastliðnum á hnjánum inni á klósetti. Þetta má þó ekki skilja þannig að Ljenszherrann hafi drukkið ólyfjan, eða sje að biðja sjer kvonfangs, heldur er hann að flísaleggja baðherbergið. Er það mikil framkvæmd.

Eins og flestir vita heimurinn, eins og við þekkjum hann, einungis ofskynjun Ljenzherrans af Kaffisterkt og annað fólk einungis dagdraumar sama manns, til að gæða ofskynjanirnar tilbreytingu.

Heyriði það, þið eruð einungis asnaleg ofskynjun og allt ykkar strit fyrir yfirborðskenndum markmiðum og fallegum hlutum gegnir því eina hlutverki að búa Ljenzherranum af Kaffisterkt fjölbreytt umhverfi.

Jæja. Í þessum skrítna heimi Ljenzherrans af Kaffisterkt lúta náttúrulögmálin furðulegum reglum. Ef það rignir getur Ljenzherrann látið stytta upp með því einu að fara í pollagalla (þess má til gamans geta að Ljenzherrann hefir lesið um það í blaði, skrifuðu af ímynduðum persónum, að sumar ímyndaðar persónur fyllist kynferðislegum losta við að klæðast pollagalla úr gúmi) Ef að það er snjór og slabb getur Ljenzherrann kallað sólina fram með því að setja bílinn sinn á nagladekk. Eins getur Ljenzherrann sett meltingar, þvag og þveitistkerfi á bullandi snúning við það að fjarlægja klósettið úr íbúðinni, til dæmis vegna flísalagnar.

Síðastliðna daga, í fjarveru klósettsins, hefir Ljenzherrann bæði þurft að mæla ofan í sig vökvann, og gæta þess sjerstaklega vel að láta ekkert ofan í sig sem ógnað gæti jafnvægi þarmaflórunnar. Á miðöldum reistu Ljenzherrar íburðarmikil virki ofan á hólum og hæðum sem að þegnarnir gátu flúið í með búsmala sinn þegar ógn steðjaði að. Til að bjarga brókum sínum flýr Ljenzherrann í Akrópólis Íslendinga, sjálfa Perluna. Ef vel er að gáð má sjá að hann tekur ívið stærri skref á leiðinni inn en út. Tíðar komur Ljenzherrans í Perluna virðast þó vera farnar að vekja grunsemdir nokkrar, því í fyrradag þegar Ljenzherrann spígsporaði, ljettur í skrefi, úr Perlunni var honum kippt inn í Lögreglubíl af nokkrum ímynduðum lögregluþjónum og spurður nokkurra vel valdra spurninga.

Þeir Lögreglumenn höfðu lengi grunað að salerni Perlunnar væru miðstöð skipulagðar fíkniefnadreifingar. Þetta mál var hinsvar bæði í senn grafalvarlegt og háleynilegt og þar sem að þeir voru ekki alveg vissir í sinni sök með aðild Ljenzherrans að málinu þurftu þeir að beita talsverðri kænsku við yfirheyrslurnar.

Aumingjans Ljenzherrann. Allar spurningar lögreglunnar um meint fíkniefnamisferli miskildi Ljenzherrann á þann hátt að þær tengdust meltingarfærum hans. Ljenzherrann var búinn að játa á sig meira en lögreglumennirnir höfðu nokkru sinni þorað að vona, meðal annars það að Ljenzherrann kæmi þarna aldrei án þess að skilja eitthvað eftir, að hann hefði komið þarna tvisvar á dag í hálfan mánuð og síðast en ekki síst að það væri bölvuð ólykt af þessu öllu saman.

Engin ummæli: