þriðjudagur, 28. desember 2004

Það er minna mál að fara í endajaxlatöku en margur heldur...
Ljenzherrann af Kaffisterkt er nú nýkominn frá tannlækni. Fór þar fram helgiathöfn. Endajaxl var rifinn úr Ljenzherranum. Fór athöfnin þannig fram að þrjár fagurlimaðar meyjar tóku á móti Ljenzherranum og teymdu hann á eftir sjer inn í miðlungsstórt herbergi. Þær sögðu Ljenzherranum að setjast og þegar hann hafði komið sjer fyrir tók bak stólsins að færast aftur, líkt og í galdri. Ein stúlknanna fóðraði Ljenzherrann með vínberjum með tilburðum sem sæmt hefðu sjálfum Anatóníusi Píusi Rómarkeisara. Á meðan skrúfuðu hinar tvær höfðuð Ljenzherrans í flauelsbólstrað skrúfstykki. Þegar hausinn var orðinn kyrfilega fastur hurfu vínberin og stað þeirra stungu þær tjakk (ekki ósvipuðum og fylgir með Toyota touring árgerð 89-90) inn um varirnar á Ljenzerranum og opnuðu kjaftinn upp á gátt. Síðan stigu þær innilegan gleðidans allt þar til að skuggi, sem var dekkri en myrkrið sjálft, tók að svífa inn um dyrnar. Þá flýðu þær og eru úr sögunni.

Það næsta sem Ljenzherrann vissi var þegar ljósin voru slökkt og tveir naktir miðaldra geldingar í góðum holdum hlupu um og kveiktu á kertum sem komið hafði verið fyrir víðsvegar um tannlæknastofuna. En skuggann stafaði ekki af eldspítnageldingunum ábúðarfullu og hvernig sem Ljenzherrann ranghvolfdi í sjer augunum gat hann ekki sjeð eiganda þessa kolsvarta skugga. Svo Þegar geldingarnir höfðu tendrað öll kertin hurfu þeir, eins og ekkert væri sjálfsagðara, hvor ofan í sinn blómapottinn.

Ljenzherrann heyrir ógeðslegan hlátur og finnur svo hvernig ísköld hendi tekur um höku hans og ógeðfelldi hláturinn færist alveg upp að eyrum hans. Ljenzherrann reynir hvað hann getur til að sjá en höfuð hans er kirfilega fast í flauelsskrúfstykkinu góða.

Ljenzherrann skynjar drungalega návist og fölar en vel snyrtar hendur taka að svífa fimlega fyrir sjónum hans með ýmis misgeðsleg verkfæri, sum staldra við uppi í munninum á honum með miklum gauragangi og látum og hverfa þaðan blóðug, en önnur virðast svífa framhjá skoltinum án viðdvalar.

Ljenzherrann finnur að munnur sinn er að fyllast af blóði og til að kafna ekki neyðist hann til að kyngja. Ljenzherrann er á barmi þess að missa meðvitnund vegna óbærilegs sársaukans og tekur að öskra. AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA. Sjer til mikillar furðu skýst annar geldingurinn upp úr blómapottinum og tónar öskrið með fullkominni ferund. Örstuttu seinna skýst hinn geldingurinn upp úr sínum blómapotti og tekur að sjer efri fimmundina. Drungalegur hlátur skuggans bergmálar yfir öllu, eins og tryllingslegt sólóhljóðfæri. Brátt heyrast einungis tvær raddir raddir og hlátur, það er liðið yfir Ljenzherrann.

Núna liggur Ljenzherrann uppi í sófa og kyngir blóðinu sem seitlar niður úr holunni sem eitt sinn hýsti jaxlinn. Ekki er talið að Ljenzherrann þurfi frekari næringu það sem af er degi. Í fanginu hefur hann dót sem hann fjekk að velja sjer, af því hann var svo duglegur, duglegur strákur.

Engin ummæli: