þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Loks birtist Ljenzherrans líffræðiverkefni, ritað fyrir sex árum...

Lýsið lífsferli mýflugu í stuttu máli
Fyrst þegar ég man eftir mér var ég að klekjast úr eggi sem að móðir mín elskuleg hafði orpið svo haganlega á yfirborðið. Fyrr en varði var ég kominn úr eggi mínu og farinn að éta eins og ég gat í kapp við systkini mín og aðra íbúa jarðarinnar.

Ég mun alltaf minnast þessarar tjarnar með hlýhug. Ég át og át og loks kom að því að hamurinn var helst til þröngur. Fyrr en varði fór hann að rifna utan af mér. Sem betur fer hafði annar hamur vaxið undir þeim gamla og sá var nú aldeilis þægilegur, bæði stærri og teygjanlegri. Ég hélt áfram að éta og éta.

Nokkur afföll urðu í systkinahópnum þó svo að ég slyppi með skrekkinn. Önnur hamskipti tóku við og voru keimlík hinum fyrri, nýr og glæsilegur hamur til að vaxa upp í. Nokkrar vikur voru nú liðnar frá því að ég skreið úr eggi og enn ein hamskiptin framundan, eða svo hélt ég.

Í stað stærri hams myndaðist púpa. Tvær pípur skutust út rétt hjá hausnum á mér en í framhaldi af því hafði lokast fyrir öndunaropið hjá rassi mínum. Um mig greip nú mikil hræðsla. ,,Hvað er að gerast?”hugsaði ég með mér, ,,ég er hættur að geta hreyft mig”

Mig er farið að vanta súrefni. Ég ákvað að stinga þessum nýju pípum upp úr vatninu og sjá hvað gerðist. Jú það virkaði! Hjarta mitt hamaðist af gleði og sálin fylltist aftur af lífslöngun þegar súrefnismettað loftið tók að streyma inn um loftæðar mínar. Þrátt fyrir það gat ég varla hreyft mig. (rétt skotist til og frá í formi heljarstökks) hvað þá étið. Í nokkra daga dvaldist ég í púpunni minni og velti fyrir mér tilgangi lífsins.

Ég fann allt í einu fyrir nýjum hlutum, m.a. sex stönglum sem að ég var að spá í að kalla fætur og tveim risastórum augum sem að virtust þekja mestan hluta míns nýja höfuðs. Með þeim sá ég í fyrsta sinn umheiminn, óljósan í gegnum púpuvegginn. Ég fylltist innilokunarkennd og ætlaði að reyna að sprengja þennan vegg utanaf mér. Ég prófaði að blása mig út af lofti. Viti menn! Það opnaðist rifa fyrir ofan vatnsyfirborðið, ég varð að komast út, varð að komast út!

Einhver innri þrá yfirtók alla skynsama hugsun og ekkert komst að nema að koma mér upp úr púpunni- út í eitthvað sem ég hafði aldrei komið nálægt áður. Loks var ég allur kominn upp úr vatninu, búinn að teygja úr þessum líka flottu fótum og farinn að sjá allt. Nei! Hvaða kusk var ég kominn með á bakið? Það var eitthvað blautt og viðbjóðslegt en ég gat hreyft það!

Loks þornuðu vængirnir og ég fór að geta hreyft þá hraðar og hraðar, loks svo hratt að ég bókstaflega tókst á loft. ég gat flogið! Vá! ,,þetta er algert æði”! hugsaði ég með mér er ég sveif yfir tjörninni góðu, þaðan sem ég hafði komið og haldið að væri allur heimurinn.

Nohh! Ég sá aðrar flugur eins og mig, svo hundruðum skipti! Ég greindi suð þeirra með hærðum prikum sem stóðu út úr höfði mínu, en það var hversdagslegt og lítið spennandi. Í dágóða stund hékk ég með þessum óspennandi flugum, þangað til... þangað til ég heyrði himneska tóna og inn í hópinn flaug fallegasta vera sem að ég hef augum litið. Aftur tók yfir einhver innri þrá og ég hrinti feitu flugunni, sem var farin að gera sér einhverjar vonir um hylli hennar burt, flaug að henni, spennti mig utan um hana og saman flugum við svo inn í eilífðina.

Eftir þessar unaðstundir sem að við áttum saman sagðist hún heita Magga. Hún þurfti að flýta sér til að ná í blóð því að annars gætu eggin, sem yrðu úr frumum okkar, ekki þroskast. “Hvaða afsökun var nú þetta!” Þvílíkt bull!

Ég hafði gefið henni hjarta mitt en það var bara rifið út og traðkað á því. Líf mitt hafði nú engan tilgang. Ég hlustaði uppi félaga mína, flaug sorgmæddur áleiðis til þeirra og sagði þeim frá raunum mínum. Hefði ég byrgt þetta allt inni hefði lífsblóm mitt aldrei dafnað að nýju og ég sæst við hlutskipti mitt.


Tveim dögum síðar sá ég Möggu aftur. Hún var veik, mjög veik og við hlið hennar var risastór fleki af eggjum. Hún sagði þau ávöxt ástar okkar en nú hefði hún lokið hlutverki sínu og væri dauðvona. Ég var hjá henni þegar hún yfirgaf þennan heim. Þar sat ég tvo tíma á eftir og velti fyrir mér grimmd heimsins- hvað það var ósanngjarnt að deyja svona í blóma lífsins.

Að lokum sætti ég mig við að það væri betra að hafa elskað og misst en að hafa aldrei elskað. ég faug á brott aftur út í risastóran heiminn, út í óvissuna....

Þá var ég étinn af önd.

Engin ummæli: