mánudagur, 11. október 2004

Ævintýri í skólpdælustöðinni, fyrri hluti
Síðastliðinn Laugardag fór Ljenzherrann af Kaffisterkt í haustferð á vegum fjelags umhverfis og byggingarverkfræðinema. Eins og allt sem gert er á vegum þess fjelags var þessi ferð ekkert annað en fyllerí.

Ferðin hófst á heimsókn í skolpdælustöðina í Klettagörðum, en þangað fer megnið af því gumsi sem bæjarbúar senda í salibunu niður klósettið hjá sjer. Starfsmenn þarna voru allir fremur skuggalegir og reyndi Ljenzherrann hvað sem hann gat til að haga sjer vel. Á einum veggnum í þessari skolpdælustöð er þrifalegur gullfiskur í glerbúri. Ekki gat Ljenzherrann sjeð að fiskur þessi væri með einhver dólgslæti, en eitthvað hefir hann gert af sjer sem varð til þess að fyrri eigendur fengu sig fullsadda og sturtuðu honum niður í klósettið.

Gullfiskurinn fannst sum sje lifandi ofan í klóakinu og er núna bara nokkuð brattur og góður með sig. Ljenzherrann viðurkennir fúslega að hann er ekkert sjerstaklega vel upplýstur um sómatilfinningu gullfiska, en er þess þó fullviss að gullfiskurinn væri ekki svona montinn ef að hann þjáðist ekki af krónísku minnisleysi.

Starfsmenn þarna hafa sjer sithvað meira til dundurs þarna en fjársjóðsleit í brúnagullinu því þarna á veggnum hjengu nokkrir badmintonspaðar. Ljenzherrann lagði allt sitt traust á að þeir hefðu ekki fundist á sama stað og gullfiskurinn og greip einn þeirra. Ljenzherrann sem ekki hafði snert badmintonspaða í mörg ár, eða síðan “atvikið” varð, fann hvernig sjer óx dugur og fór að sveifla honum í kringum sig með miklum tilþrifum. Ljenzherranum varð síðan hugsað til þess að kappar miðalda unnu sjer hylli fagurra stúlkna með færni sinni í skylmingum. Ljenzherrann sveiflaði spaðanum örlítið meira og sannfærðist algerlega um að þetta hlyti líka að gilda um badminton.

Ljenzherrann handljek hnitsspaðann sem fínasta sverð og af mikilli virðingu og leit í leit í kringum sig, í leit að verðugum keppinaut. Ljenzherrann skaut niður annarri augnabrúninni og augun staðnæmdust loks á fegurstu stúlkunni í þessari skolpdælustöð (og þótt víðar væri leitað). Ljenzherrann gekk að henni, kyssti hönd hennar og skoraði hana á hólm.

Stúlkan gekkst við boðinu. Það kurraði ánægjulega í Ljenzherranum sem strauk á sjer yfirvaraskeggið og lagaði síðan axlarböndin fyrir komandi átök. Einvíginu var valinn staður á palli sem að reis eins og eyja upp úr klóakhafinu og ákveðið var að sá sem myndi skjóta útfyrir hefði ekki einasta tapað, heldur þyrfti einnig að sækja badmintonkúluna. Í þessu viðeigandi umhverfi hófst einvígið. Stúlkan geislaði af fegurð og hreinleika og var í miklum andstæðum við þetta nöturlega umhverfi, en Ljenzherrann ...við vitum jú öll hvernig hann er.

Leikurinn hófst með því að stúlkan gaf upp. Ljenzherrann sprangaði af stað eins og fjallageit og skaut boltanum til baka. Hann fylgdist taugaveiklaður með því hvort að boltinn færi út af. Ljenzherrann var nefnilega ekki viss um að hann gæti nokkurn tíman aftur gengið stoltur eftir baðið sem að myndi þá bíða hans.

Ljenzherrann dró andann ljettar þegar stúlkan sendi boltann til baka í fögrum boga. Ljenzherrann gjóði augunum að gullfisknum og fylltist öfund út í þessa gulu hlussu fyrir muna ekki ekki eftir sinni sundferð í þessu fúla pitti.

Ljenzherrann rankaði við sjer í rjett svo tæka tíð til að ná að senda boltann aftur yfir og það var enn tæpara en áður hvort að boltinn færi ofan í. Stúlkan valsaði hinsvegar áhyggjulaus um eins og blómálfur og sló boltann í fullkomnu áhyggjuleysi og eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ljenzherrann sá að þarna var ofjarl hans á ferðinni og öll hans orka fór í að finna leið út úr þessari skömm sem að var á leiðinni til hans hratt og örugglega.

Ljenzherrann leit upp í loftið og eygði þar sína einu von. Þegar boltinn kom lagði hann allan sinn kraft í að senda hann upp í rjáfur, í þeirri von að boltinn myndi festast þar. Viti menn, Ljenzherranum varð að ósk sinni. Badmintonboltinn festist ofan á burðarbita og Ljenzherrann gekk að stúlkunni fögru og bauð jafntefli. Heiðri hans hafði verið bjargað fyrir horn.

Engin ummæli: