miðvikudagur, 13. október 2004

Ljenzherrann er sjúkur, hann er með kvef og eyrnabólgu. Öll göt (fyrir ofan mitti) eru kyrfilega stífluð. Í nótt neyddist hann því að sofa með opinn munninn og þegar að hann vaknaði var kjafturinn á honum skraufaþurr sem eyðimörk. Þótti honum það hin furðulegasta lífsreynsla að senda skraufaþurra tunguna í könnunarleiðangur um skraufaþurran munninn.

Ljenzherrann gerir sitt besta til að sporna gegn ástandinu með því að snýta sjer kröftuglega. Við þann starfa brúkar hann eingöngu Andrex salernispappír, því hann er gæðavottaður með “By appointment to her majesty the Queen” og það sem að er nógu gott fyrir eðalrassgatið á Elísabetu Englandsdrottningu hlýtur að vera nógu skrambi gott fyrir trýnið á Ljenzherranum.

Ljenzherrann brýtur pappírinn saman samkvæmt flóknu “Origami” mynstri þannig að þegar að hann er búinn að snýta kröftuglega úr hverri nös hefur hann í höndunum fagurlega skapaðan og uppblásinn loftbelg. Reyndar blæs Ljenzherrann yfirleitt svo kröftuglega þegar hann snýtir sjer að það tístir í kokhlustinni. Kokhlustin hefir verið löngum verið Ljenzherrans helsta stolt og verður hann aldrei leiður á því að flíka henni, sjerstaklega ef að honum þykir einhver annar vera að fá helst til mikla athygli. Þá stekkur Ljenzherrann fram og galopnar á sjer skoltinn eða lætur kíkja í eyrun á sjer.

Ljenzherrans kokhlust er eitt af því fegursta sem að náttúran hefir upp á að bjóða og hefir hann stórhuga áætlanir um að hafa hana að fjeþúfu.En núna er kokhlustin stífluð og Ljenzherrann finnst hann vera ógeðslegur og ljótur.

Engin ummæli: