þriðjudagur, 5. október 2004

Gærdagsins greifar.
Það var einn grámyglulegan laugardagsmorgun í sumar að Ljenzherrann af Kaffisterkt var á leið til vinnu. Klukkan var rjett rúmlega sjö og Ljenzherrans trukkur var nýbúinn að kyssa nýjan dag með stórglæsilegum reykjarmekki sem hann afgreiddi í gegnum púströrið.

Það verður sennilega seint sagt um þetta ökutæki að það sje fallegt, alltjent í hefðbundnum skilningi þess orð. Annálaðir rómantíkerar gætu þó átt það til á sínum bjartsýnni dögum að telja ökutækinu eitthvað til tekna. Þeir myndu þó líklega gera allt sem í sínu valdi stendur til að taka orð sín aftur þegar víman væri af þeim runnin og hindra að þetta yrði haft eftir þeim.

Innilokaður í 2,3 tonn af ryðguðu járni hossaðist Ljenzherrann eftir Hringbrautinni og horfði með skilningsríku aumkunarglotti á jakkafataklædd vonleysisgrey sem í rigningarsuddanum reikuðu eitt og eitt í senn, einmanaleg eftir gangstjettunum. Í einmanaleik sínum áttu allir þessir einstaklingar hinsvegar það sameiginlegt að þeir virtust ekki fullkomlega sannfærðir um það að stysta leið á milli tveggja punkta væri bein lína.

Ljenzherrann horfði á tuskulegan klæðnað þeirra og úfið hárið flaksa í vindinum og reyndi að rifja upp fyrir sjer þennan ógeðslega fnyk sem hertekur klæðin eftir kvöldstund á “djamminu.” Ljenzherrann reyndi að gera sjer í hugarlund hvernig þessir sömu einstaklingar hafi litið út er þeir stigu ferskir út í gærkveldið, nýbaðaðir og ilmandi, með fulla vasa af væntingum og fögrum fyrirheitum. Ljenzherrann gerði sjer fyllilega grein fyrir því að þær væntingar sem þessir herramenn gerðu til gærkvöldsins hafi brostið. Ef til vill hafa þeir hafa ætlað að freista þess að fanga hjarta ákveðinnar meyjar til lengri tíma, eða vonast til að sænga með handahófsvalinni snót, þar til birta tæki af næsta degi. Í stað frækilegra sigra enduðu þeir hinsvegar morknir og illa lyktandi á reiki meðfram Hringbrautinni og urðu að þess valdandi að maður sem ekur um á tuttuguþúsundkróna haugryðguðum pallbíl varð bara nokkuð ánægður með sjálfan sig.

Ljenzherrann fylltist í senn þakklæti fyrir það að vera ekki þunnur og kergju yfir því að þurfa að rífa sig upp fyrir allar aldir á þessum drumbungslega laugardagsmorgni. Bíllinn hossaðist áfram og þessum greifum gærdagsins fækkaði jafnt og þjett eftir því sem að fararskjótinn nálgaðist Kópafjörð. Ljenzherrann ljet rúðuþurrkurnar renna sjer eina salibunu yfir rúðuna og hvessti augun fram á veginn. “Lengi er von á einum”, hugsaði Ljenzherrann með sjer. Hann gat ekki betur sjeð en að það stæði jakkafataklæddur gærdagsgreifi í kantinum, með útrejttan þumal. Ljenzherranum þótti stráksi seigur að hafa rölt alla þessa leið og fór að bræða það með sjer hvort að hann ætti að leyfa honum að hoppa upp á pallinn og fljóta með til Garðavogs, eða jafnvel Hafnarbæjar.

Skyrtan hans var girt öðrum megin ofan í og þegar Ljenzherrann færðist nær hvarf þumallinn hægt og hljótt bak við mjöðmina og svipur færðist yfir andlit gærdagsgreifans líkt og stráksi væri að flauta. Ljenzherrann lagaði baksýnisspegilinn og sá að þegar hann var kominn í örugga fjarlægð færðist þumallinn aftur upp.

Mannseðlið er ótrúlegt fyrirbæri, það er sama hveru illa fyrir þjer er komið, alltaf muntu leitast við að halda einhverri reisn.

Ljenzherrann biðst afsökunar ef hann hefir farið vitlaust með einhver staðarnöfn, hver nennir svo sem að leggja það á minnið hvað þessi pláss úti á landi heita.

Engin ummæli: