föstudagur, 15. október 2004

Gúllas
Síðastliðið sumar, þegar Ljenherrann var einu sinni sem oftar á vappi um Reykjanesbrautina með bakpokann sinn og lensuna, átti hann erindi yfir veginn. Þetta var umferðarþungur föstudagur og Ljenzherranum tókst einungis að komast yfir aðra akgreinina í fyrstu tilraun og sat því fastur á miðri brautinni með hvæsandi bifreiðar á fullri siglingu til sitthvorrar handar. Ljenzherrann sá að það gæti liði drjúg stund þar til að hann kæmist alveg yfir þannig að hann stillti sjer tígullega upp með lensuna sína og horfði sperrtur fram á veginn (Reykjanesbrautina).

Hann pírði augun í þeirri von að geta staðið ökumenn að því að bora í nefið en þar sem að umferðarþunginn var frekar mikill þennan föstudaginn voru flestir ökumenn löngu búnir að tæma báðar nasirnar þegar þeir loksins óku fram hjá Ljenzherranum og ævintýrum hans í Reykjanesbrautinni.

Ljenzherrann hefir löngum haft ímugust á einkanúmerum, og flokkar þau í tvo flokka; hjegóma og ljelega brandara. Í fjarska blasti við honum bíll með einkanúmeri sem að virtist megna það að kollvarpa þessu flokkunarkerfi Ljenzherrans. Einkanúmerið var "GÚLLAS". Ljenzherrann brosti, þetta þótti honum sniðugt einkanúmer, og það á bens, en allir einkanúmerabensar höfðu hingað til farið beinustu leið í hjegómaflokkinn. Ljenzherrann hneigði sig örlítið í virðingarskyni við þennan sniðuga einstakling og hlakkaði mikið til að sjá framan í hann þegar hann kæmi nær.

Fljótlega fór Ljenzherrann þó að rjetta úr sjer og virðingarskynið breyttist í morðtilræði með lensu. Bílnúmerið var ekki "GÚLLAS" eins og Ljenzherrann hafði fyrst haldið, heldur "GULLÁS" og við stýrið sat kelling í minkapels. Ljenzherrann ygldi sig framan í hana og otaði lensunni að bíl hennar með ógnandi hætti. Frúin setti yfirlætissvip á bleikar varirnar og lyfti upp hálfskyggðum sólgleraugunum þannig að það glitti í pínulitlar glyrnurnar. Á öxl hennar hjekk uppstoppaður refur og þegar hún var loksins kominn framhjá stóð Ljenzherrann eftir lamaður og kúgaðist af bensínfnyk í bland við Chanel No 5.

Þessi saga kennir okkur að vera svartsýn og búast alltaf við því versta, því tuskan er á leiðinni í andlitið á okkur sama hvort við viljum eður ei, og hún er blaut.

Engin ummæli: