miðvikudagur, 6. október 2004

Einhverjir kunna að muna eftir þessari færslu, þegar Ljenzherrann rjeði sig í byggingarvinnu.

Ljenzherrann fór í gær á fund þessa gamla vinnuveitanda til að reka erindi. Eftir að Ljenzherrann hafði rekið sitt erindi lenti hann á klukkutímalangri kjaftatörn þar sem að vinnuveitandinn barmaði sjer mikið yfir þeim fjórum mönnum sem hann hafði ráðið í Ljenzherrans stað.

Þrír þeirra drukku fyrir öll launin sín, en einn át. Óreglumennirnir hurfu eftir hverja útborgun og drukku viðstöðulaust þar til þeir urðu blankir en mathákurinn, sá óseðjandi nautnaseggur, mætti hinsvegar samviskusamlega á hverjum morgni. Var hann ævinlega klyfjaður heimasmurðu góðgæti og ljúffengum sósum sem að hann úðaði í sig í lögboðnum sem sjálfsskipuðum neyzluhljeum.

Svo líður og bíður og mathákurinn þreifst vel. Að nokkrum vikum liðnum var hann orðinn að spikfeitum ístrubelg og var farinn að eiga í stökustu vandræðum með að príla í stillönsunum utan á húsinu. Yfirleitt ferðaðist hann milli hæða innandyra, en þar var lyfta. Einn morguninn, þegar hann var að koma úr bakaríinu gerðist hann full bjartsýnn og hugðist stytta sjer leið með því að klifra upp stillansinn í stað þess að fara inn og nota lyftuna eins og hann var vanur. Hann rjeðst til atlögu við hrörlegan bráðarbirgðastigann og hugðist fara upp á fyrstu hæð.

Hægt en örugglega fikraði ístrubelgurinn sig upp stigann og þótt ótrúlegt væri virtist honum ætla að takast þetta. Í hverju þrepi óx honum sjálfstraust og hann tautaði fyrir munni sjer ýmis hvatningarorð. Þegar æu efsta þrepið var komið varð hann svo heltekinn slíkri ánægju með sjálfan sig að hann dúaði sjer örlítið í hnjánum. Þá þurfti ekki að sökum að spyrja, þrepið undir honum gaf sig og hann hrundi niður á það næsta. Það hlaut sömu örlög og sem dóminókubbar gáfu sig öll þrepin þar til að hann stóð steinhissa á jörðinni með tvær langar spýtur í höndunum sem að hann vissi ekki almennilega hvað hann ætti að gera við.

Engin ummæli: