mánudagur, 13. september 2004

Ljenzherrans ljúffenga sætsúpa
Ljenzherrann er svo lánsamur að hvern föstudag, í vísindaferðum svokölluðum, er honum gefið frítt að eta og drekka. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar að þar sem aldurinn er farinn að færast yfir Ljenzherrann dugar hann ekki jafn lengi og áður og er því kominn heim í kringum miðnættið. Sukkið og svínaríið hefst að jafnaði klukkan fjögur síðdegis, þegar almennilegt fólk er að drekka te og bryðja kex. Sukkferlið hliðrast því allt fram um nokkra klukkutíma því að Þegar tedrykkjuliðið tekur loks að tínast niður í bæ er Ljenzherrann löngu farinn að tauta sig í svefn í fleti sínu.

Það vill oft verða svo að garnirnar taki að gaula þegar líða tekur að lokum flugferðar óminnishegrans. Þegar birta tekur að morgni er garðinn þjettsetinn á skyndibitastöðunum. Hægt er að vera með sjerþarfir ýmisskonar, sumir vilja ekki lauk og aðrir geta svalað gremju sinni að nokkru með aukamagni af sósu ef að kvöldið stóð ekki undir þeim væntingum sem gerðar voru til þess

Ljenzherrann brunaði þó fram hjá ólánsama liðinu sem stóð í biðröðum fyrir utan skyndibitastaðina og mátti láta sjer nægja að kjamsa á sveittu skyndibitafæði, útötuðu í sósu og mettuðum fitusýrum. Ljenzherrann herti á sjer því hann vissi að hann ætti von á mun betra, algerum kræsingum. Hann hafði nefnilega verið búinn að malla sætsúpu í heillangan tíma, sem að hann hlakkaði mikið til að geta loksins smakkað.


Ljenzherranum þykir nefnilega fátt dásamlegra heldur en sjóðheit sætsúpa og ekki brást hún væntingum hans, flauelsmjúk áferðin, gullsleginn liturinn og hiti sem að vermdi honum í innstu hjartarætur. Við hvern sopa lauk Ljenzherrann aftur augunum í unaði sínum og bölvaði sjer fyrir að búa ekki svo vel að eiga þeyttan rjóma og tvíbökur. Þegar Ljenzherrann var búinn að gæða sjer á lostætinu varð hann svefnhöfginni að bráð. Hann lagðist til hvílu í nýstraujuð rúmfötin, brosandi og fullkomlega sáttur við lífið og tilveruna.

Daginn eftir vaknaði Ljenzherrann og var enn með hinn unaðslega keim sætsúpunnar í munni sjer. Sem betur fer kláraðist ekki öll sætsúpan um nóttina gat hann því notið þess að eiga smá sætsúpu til að hjúkra sjer í þynnkunni. Sætsúpan var meira að segja ennþá volg og Ljenzherrann fjekk sjer í agnarlitla skál. Hann drýgði það litla sem hann átti með því að taka agnarlitla sopa og naut sjerhvers þeirra til fullnustu.

Engin ummæli: