miðvikudagur, 15. september 2004

Ljenzherrann spurði Pena litla pennastrákinn áðan hvort að hann nennti að koma með sjer út í bakarí. Peni sagðist nú ekki vera svangur en ákveður samt að koma með. Þar sem að peni litli pennastrákurinn tekur ívið lengri skref en Ljenzherrann er hann kominn eilítið á undan Ljenzherranum í bakaríið og þegar sú svuntuklædda spyr hann hvort að hún geti aðstoðað hann svarar hann að bragði:

"Tvö rúnstykki, klessubitaköku, tvo smurosta með rækjubragði, Napóleonshatt, vínarbrauðslengju, þriggjakornabrauð niðursneytt, Berlínarbollur tvær, smjerklípu, sneið af þessari gómsætu gulrótarköku, marsipanstykki og tvo poka af brauðraspi."

-"Uh... Eitthvað fleira?"

"Já!!! Tvo lítra af kókómjólk og tvo snúða, annan með glassúr en hinn með súkkulaði."

Á meðan afgreiðslustúlkan er að tína þetta smáræði til fyrir pennastrákinn kemur önnur og fer að aðstoða Ljenzherrann, sem staðið hafði fyrir þessari ferð til að byrja með.

"Get ég aðstoðað þig?"

-"Já, eina dós af maltextrakt, takk fyrir?

"eitthvað fleira???"

-" nei takk."

Andlitið dettur af pennastráknum við þetta og hann missir næstum því pokana á gólfið með öllu gotteríinu.

“eina dós af malti??? ferð þú út í bakarí og kaupir eina dós af malti??? er ekki allt í lagi með þig?? Ohh.... þú ert svo....!!!!!”

Ljenzherrann veit af fyrri reynslu að það þýðir ekki að svara pena litla perrastráknum þegar það hefur fokið svona svakalega í hann. Ljenzherrann nær því í blekbyttuna og flýtir sjer að skrautrita nafn sitt á posanótuna svo að stúlkan geti farið að afgreiða næsta mann.

Peni litli pennastrákurinn, sem hlýtur að mega teljast til raddsterkari manna, heldur áfram að brýna raust sína og býsnast og skammast í Ljenzherranum og reynir meira að segja að slá til hans með þrem pokum sætabrauðs.

Pennastrákurinn þagnar ekki fyrr en að maðurinn öskrar eina dós af maltöli, og brunar svo út í fússi. Þá verður pennastrákurinn hvítur í framan sem sýslumannskonfekt og stendur lúpulegur, klifjaður pokum merktum Birni bakara.

“Það hreinlega rýkur út hjá þeim maltið”
Segir Ljenzherrann og fær sjer sopa.

Engin ummæli: