föstudagur, 3. september 2004

Ljenzherrann fór í dag í leiðangur til að afla sjer akademískra aðfanga. Af tilefninu setti hann sinn mjög svo óakademiska vagn í gang og setti óakademísk sólgleraugu á trýnið. Það veit alltaf á gott þegar trukkurinn er hættur að spúa eldi og eimyrju aftan úr sjer og farinn að ganga á öllum sex strokkunum, þá er óhætt fyrir sólglerjaða Ljenzherra að taka akademíska og upplýsta ákvörðun um það hvaða gír verði fyrir valinu. Yfirleitt stendur valið á milli gírs merktum 1 eða R og fer það eftir því hvorum megin við ökutækið sje meira af hindrunum. R er skammstöfun fyrir “Reverse” en það er apturábak upp á enskan. Verði R fyrir valinu fylgir 1 yfirleitt í kjölfarið en þá höktir trukkurinn af stað áfram í stað þess að hryssast apturábak, eins og í hinum ágæta gír “R” Það fer síðan eftir því hvort að Ljenzherrann geti ekið óhindraður um göturnar hvort að gírar 1, 2, 3, 4, 5 verði brúkaðir og yfirleitt í þeirri röð. Svo virðist sem að allir gírar tölusettir knýi ökutækið áfram, en þeir sem heita í höfuðið á bókstöfum , eins og R, virki apturábak. Í gír 2 ekur ökutækið ívið hraðar en í gír eitt og eins kemstu hraðar í gír þrjú en tvö og virðist þessi regla gilda óhindrað upp í gír 5. Gamlar konur forðast yfirleitt gír R eins og heitan eldinn en nota annars einungis gíra eitt og tvö. Gamlir kallar hafa flestir þann háttinn á að sleppa sljettrartölugírum. Leigubílstjórar hafa flestir “robot-automat” í sínum bílum sem sjer um að velja fyrir þá gírana og er þá þungu fargi af þeim ljett.

Í Ljenzherrans trukk er einnig stöng til viðbótar merkt 2H, N, 4H og 4L, en einungis ber að hræra í henni í meiriháttar trakteringum, til dæmis þegar ekið er yfir japanska smábíla ef ökumaður þeirra borar í nefið fram yfir ljósið rauða.

En halló!! er þetta vefsíða um gíra? Nei, hjelt ekki, það er óþarfi að missa þetta út í einhverja vitleysu. Höldum áfram með ferðasöguna. Ljenzherrann valdi gír R og fór þaðan í gír 1 og aftur í gír R og aftur í gír 1, akademísk bílastæði eru ekki hugsuð fyrir svona trukk. Trukk sem eyddi fyrstu tíu árum sínum austur á fjörðum við að bera símaviðgerðarkarla um fjöll og firnindi í leit að slitnum símstrengjum og næstu átta liðu hoppandi og skoppandi um íslenzka fjallvegi og vegleysur. Þá leið honum vel og fannst sem verkefni sín væru sjer samboðin.

Bíll sem framleiddur var til hernaðarnota og bar áður fyrr austfirzkt símasamband á öxlum (sbr. öxull) sjer, er í dag notaður til snatts eins og þegar Ljenzherrann sækir sjer rúðustrikaðan pappír. Það skal því engan undra að trukkurinn kveinki sjer sama hve Ljenzherrann reynir að velja gírana með akademískum og útspekúleruðum hætti, hann kærir sig ekki um svoleiðis. Hann fær illt í olíuverkið og fyllist fortíðarþrá, hann minnist þeirra tíma þegar hann ók aldrei annarsstaðar en langt utan mannabyggða með tvo símaviðgerðarkarla. Þeir voru sko engir pempíulegir pennastrákar eins og Ljenzherrann heldur karlar í krapinu. Karlar í krapinu sem voru jafnvel svo blátt áfram að þeir hikuðu ekki við að hægja sjer í skjóli afturbretta trukksins.

Þá geymdu þeir “skeininn” bak við bílstjórasætið, í seilingarfjarlægð frá handbremsunni. Þannig að það væri hægt að græja málið með þrem þaulpældum hreyfingum þegar að kallið kæmi. Ljenzherranum lærðist það snemma að ef að trukkurinn var seinn í gang á morgnanna eða einhver hundur væri í honum nægði yfirleitt að framkvæma þessar útpældu hreifingar. Rykkja upp handbremsunni, grípa skeininn (sem var ennþá á bakvið sætið þegar Ljenzherrann eignaðist þetta djásn) bruna að afturbrettinu og leysa niður um sig. Þetta er óbrigðult meðal og trukkurinn fer án undantekninga að mala eins og pattaralegur fressköttur. Aðrir bifreiðaeigendur eru þó býsna óskilningsríkir í garð bifreiðaviðgerða sem þessara.

Bíddu nú við, hvar vorum við... uhh... já, 1 og R, 1 og R, Ljenzherrann var að skaka trukknum sínum fram hjá japönskum smátíkum skólafjelaga sinna. Hver var aftur tilgangurinn með þessari sögu?? Æi ég man það ekki.

Engin ummæli: