föstudagur, 24. september 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt -svefndrukkinn róni.
Sú var tíðin, þegar Ljenzherrann var yngri að árum, að faðir hans hringdi jafnvel daglega til að athuga hvernig afkvæmi sínu vegnaði í lífsins ólgu sjó. Símtöl þessi framkvæmdi hann yfirleitt úr vinnu sinni, ef til vill til að þynna grámyglu hversdagsins með ánægjulegum samtölum við vini og ættingja. Oftar en ekki lá Ljenzherrann í beði sínu og svaf þegar síminn hringdi. Þar sem að þetta var fyrir daga farsímabyltingarinnar þurfti Ljenzherrann að hlaupa sem fætur toguðu fram í forstofu til að svara símanum. Ljenzherrann var því yfirleitt nægjanlega vaknaður eftir alla árekstrana og ævintýrin sem hann lenti í á þessari stuttu leið til að svara föður sínum skýrt og skilmerkilega.

Dag einn eignaðist fjölskyldan þráðlausan síma sem að Ljenzherranum þótti sannkölluð himnasending því honum hugkvæmdist samstundis að taka símann með sjer í bælið og þar með myndi hann losna við að útskýra marblettina og glóðaraugun ítrekað fyrir skólahjúkrunarfræðingnum og gæti auk þess sofnað strax aftur að samtali loknu.

Faðir Ljenzherrans hjelt uppteknum hætti með sín síðdegissímtöl en eftir að þráðlausi síminn kom til vöktu þau ekki sömu ánægju og áður, heldur kveiktu þau í brjósti hans þann kvíða sem fyllir huga foreldra sem grunar að börn sín sjeu dottin í fíkniefnaneyzlu.

Ljenzherrann er nefnilega einn af þeim sem gerist ákaflega svefndrukkinn og ef að hann er vakinn af svefni sínum er honum það eðlislægt að láta eins og hann hafi ekki verið sofandi, til dæmis með því að reyna að halda uppi eðlilegum hraða í samræðum við þá sem að vekja hann, yfirleitt á kostnað innihaldsins. Ljenzherrans faðir náði því ekki með neinu móti að toga neitt með viti upp úr afkvæmi sínu sem að lá upp í rúmi með nýja þráðlausa símann og tautaði einhverja bölvaða þvælu í rjettu hlutfalli við það sem að heyrðist í tólinu.

Að loknum ítarlegum læknisrannsóknum var Ljenzherrans föður tilkynnt það að afkvæmið væri ekki dópisti, heldur ónytjungur sem að svæfi allan daginn. Ljetti honum talsvert enda óttaðist hann að hann hefði sjálfur kallað þessar hörmungar yfir fjölskyldu sína, jafnvel þó svo að hann hafi ekki rekist á neinar rannsóknir þess efni að þráðlausir símar ýttu ungmennum út í fíkniefnaneyzlu.

Af nýlegri ævintýrum Ljenzherrans á þessu sviði má nefna að einn morguninn spratt hann á fætur við það að síminn hringdi og steig ofan á vigtina sem að lá við hliðina á rúminu. Ljenzherranum fannst þetta talsvert skrítið, því þótt svefndrukkinn væri, kannaðist hann ekki við að eiga baðvigt, hvað þá að hafa sett slíka við hliðina á rúminu. Þegar betur var að gáð reyndist vigtin vera Ljenzherrans sjerstaki ferðadator (ferðatölva) og varð henni sem betur fer ekki meint af volkinu.


Engin ummæli: