miðvikudagur, 29. september 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt er ákaflega áhyggjufullur. Hann er að fara að kaupa sjer íbúð og til að fjármagna sig ætlar hann að taka eitt af þessum nýju lánum sem eru með lægri vexti en áður hefir þekkst. Sá böggull fylgir nefnilega skammrifi að til þess að fá lán á þessum kjörum þarf greyið Ljenzherrann að giftast KB-banka næstu tuttugu og fimm árin og heita honum hollustu sinni með ýmsu móti, svo sem með viðbótarlífeyrissparnaði. Ljenzherrann barmaði sjer því ákaflega og grjet beiskum tárum þegar hann pantaði tíma hjá lífeyris og líftryggingarráðgjafa, því hann hefir ekki góða reynslu af svoleiðis mönnum.

Í sumar komu tveir svona "lífeyris og líftryggingamenn" frá KB-banka á Reykjanesbrautina og lögðust á mannskapinn. Hægt er að eitra fyrir engisprettum og jafnvel vottar Jehóva skilja það þegar hurðinni er skellt á smettið á þeim, en á þessa plágu verkuðu engin meðöl. Þeir hlupu á eftir öllum þeim sem gerðu sjer skyndilega erindi í aðra bæjarhluta og lögðust á rúður, eins og hverjir aðrir pervertar, til að athuga hvort að einhver með kennitölu leyndist þar á bakvið.

Hinn dæmigerði lífeyris og líftryggingamaður gengur alltaf í jakkafötum og eru þau heldur vandaðri að gerð en þau sem að “snyrtilegir fituhlunkar” eru hvað þekktastir fyrir. Önnur einkenni lífeyris og líftryggingamanna eru nýpússaðir sjömílnaskór, stresstaska, pínulítill gsm-sími með handfrjálsum búnaði og fylgihlutir fyrir hvert tilefni, til dæmis sólgleraugu af rjettu merki. Lífeyris og líftryggingamaður passar jafnan upp á að hann fái næg vítamín og steinefni og drekkur malt til að fá hraustlegt og gott útlit. Hann vill geta bent á sjálfan sig og sagt : sjáðu hvað ég er sólbrúnn og sæll, það er af því að ég er búinn að ganga frá viðbótarlífeyrissparnaði.

Ljenzherrann varð var þessa hrægamma þegar hann kom á skrjóðnum sínum í kaffi, en þá sá hann að þessar tvær jakkafataklæddu köngulær voru búnar að spinna vef utan um innganginn að matsalnum og hámuðu hvern þann í sig sem að gerði sig líklegan til að komast inn. Ljenzherrann fjekk hroll og nennti ómögulega að eiga samskipti við þessa smeðjulegu einstaklinga. Hann ákvað að reyna að bíða þá af sjer og fylgdist með þeim bakvið gamalt dagblað sem hann hafði útbúið sjerstaklega til njósna með því að gera tvö göt fyrir augun. Ljenzherranum fannst hrægammarnir minna einna helst á útsendara Smith úr Matrix myndunum. Ljenzherrann sá einnig hvernig mótstöðuafl samstarfsmanna sinna minnkaði með hverri sekúndunni sem leið eftir að þeir höfðu verið króaðir af úti í horni. Brátt voru vinnufjelagarnir komnir í halarófu fyrir framan annan lífeyris og líftryggingarmanninn sem sat með mannaskítsglott á vör og heilan bunka af eyðublöðum í kjöltunni á meðan hinn útdeildi pennum á línuna.


Lífeyris og líftryggingamenn í leit að fórnarlömbum.

Ljenzherrann sá að þeir voru uppteknir, lagði rólega frá sjer blaðið og opnaði bílhurðina með stakri varúð, vesalings skrjóðurinn aumkaði sjer yfir þessu ónæði með háværu ískri í hurðarlöminni. Höfuð annars lífeyris og líftryggingarmannsins hreyfist snöggt og þrátt fyrir sólgleraugun fann Ljenzherrann hvernig augu hans hvesstust á sig. Ljenzherrann skellti aftur með miklum látum og grúfði sig aftur ofan í blaðið sitt. Lífeyris og líftryggingamaðurinn gekk að bílnum og fór að veifa Ljenzherranum í gegnum hliðarrúðuna, Ljenzherrann grúfði sig enn betur ofan í afar merkilega grein um fjelag íslenskra radíóamatöra og þóttist ekki taka eftir neinu.


Heyrði ég þrusk????

Hurðinni var að lokum hrundið upp og lífeyris og líftryggingamaðurinn rak inn sólbrúnan og velsnyrtan spaðann, kynnti sig og spurði hvort að Ljenzherrann væri með viðbótar lífeyrissparnað. Jafnvel þó svo af lífeyris og líftryggingamanninum legði ilm af dýru kölnarvatni fauk í Ljenzherrann við þessa framhleypni og hann benti á drusluna sína og öskraði síðan á lífeyris og líftryggingamanninn hvort að honum dytti virkilega í hug að maður sem að æki um á bíl sem þessum kærði sig um krydd, kavíar eða viðbótarlífeyrissparnað. Ljenzherrann hafði varla tónað síðasta hlutann í öskrinu fyrr ena hann skellti aftur hurðinni með slíkum tilþrifum að lífeyris og líftryggingarmaðurinn má teljast nokkuð heppinn að hafa alla sína putta.

Ljenzherrans tígulega tryllitæki

Ljenzherrann trekkti við svo búið trukkinn sinn í gang og spólaði í burtu. Lífeyris og líftryggingamaðurinn fattaði sjer til skelfingar að hann hafði flúið það hratt út úr bílnum að bindið náði ekki að elta eiganda sinn og hafði því klemmst milli stafs og hurðar. Í örvæntingu reyndi hann að bjarga lífi sínu, þó líftryggður væri, með því að hlaupa með bílnum. Ljenzherrann hjelt að maðurinn hefði einfaldlega ekki gefist upp, öskraði : "túrbó dísel!!" og botnsteig skrjóðinn. Að lokum náði Lífeyris og líftryggingamaðurinn að losa af sjer bindið, en í dag sjer hann um leikifimi og teygjuæfingar á dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Ljenzherrann af Kaffisterkt á bókað viðtal klukkan hálf tíu í fyrramálið.

Engin ummæli: