þriðjudagur, 7. september 2004

Föstudagskvöld í þremur hlutum-hluti tvö, föruneyti Ljenzherrans
Þegar sýnt þótti að Pravda-majónesan væri orðin gul skipaði Ljenzherrann sjer föruneyti og hjelt af stað til fundar við frekari ævintýri. Peni litli pennastrákurinn og Hárprúði-Jón buðu sig þegar í stað fram og ásamt hinni fögru Ísönd mynduðu þau föruneytið. Leiðin lá upp Laugarveginn og á leiðinni vildi svo til að ógæfumaður rakst utan í Ljenzherrann. Ógæfumaðurinn tók þegar til við að gera hróp að Ljenzherranum á enskri tungu, en slíkt er siður hjá drukknum ógæfumönnum. Ljenzherrann leyfði honum að láta móðan mása en þegar ógæfumaðurinn tók sjer hlje til að sækja meira loft til að þröngva í gegnum raddböndin dró Ljenzherrann upp myndavjel og smellti af honum einni mynd. Flassglampinn virtist vekja upp hjá ógæfumanninum bældar minningar úr ömurlegri æsku því að eftir þetta varð hann hálfu verri. Tók hann þá að gera aðsúg að henni Ísönd. Ljenzherranum hafði staðið á sama um dónaskapinn í manninum á meðan dólgshátturinn beindist að sjer sjálfum, en að kauði skyldi ekki sýna fröken Ísönd tilhlýðilega virðingu, það gat hann engan veginn þolað. Ógæfumanninum var óskað góðs gengis í lífunu og tilverunni og í kveðjuskyni bauð Ljenzherranum ógæfumanninum upp á ókeypis sýnikennslu á þriðja lögmáli Newtons, og er hann þá úr sögunni.

Ljenzherrann af Kaffisterkt er ákaflega vönduð persóna sem leggur sig í líma við að heiðra lítil börn með nærveru sinni og bjarga konum úr háska.

Að þessum hremmingum loknum komst föruneytið í húsaskjól í Ölstofu Kormáks og Skjaldar, en fljótlega tók það að tvístrast. Hárprúði-Jón, sem ögrað hafði skapara sínum allt kvöldið með síendurteknum einvígjum við Kaptein nokkurn Morgan var að lokum borinn ofurliði. Eins yfirgaf Fröken Ísönd samkvæmið og í sætið hennar settist Dóra Takefúsa, en hún hefir oft verið í sjónvarpinu. Í óspurðum frjettum tók Ljenzherrann til við að tilkynna henni að sjer þættu örlögin ósvífin. Fröken Takefúsa varð því fegnust þegar síminn hringdi hjá Ljenzherranum.

Á línunni var Gavon en hann var áhyggjufullur og tjáði Ljenzherranum að hann hefði týnt veskinu sínu. Ljenzherrann róaði Gavon með sefandi rödd sinni og sagði að allt yrði í lagi og bað Gavon að koma til fundar við sig. Þegar þeir hittust gaf Ljenzherrann Gavoni einn vænann á lúðurinn í nafni þeirra banka og sparisjóða sem átttu kort í þessu veski. Ríkislögreglustjóri fjekk einnig nokkuð fyrir sinn snúð, en hann hafði í óráði gefið út ökuskírteini á þennan óvandaða einstakling. Gavon bar sig ákaflega illa og óskaði þess að fá að skríða undir verndarvæng Ljenzherrans og sagði að sjer þætti heiður að vera undir náð hans kominn. Ljenzherrann íhugaði málið vandlega, gekk síðan að stærsta ruminum sem hann sá, bankaði í öxlina á honum og sagði honum að “þessum þarna” (Gavoni) þætti hann kjáni. Síðan stóð Ljenzherrann og hló á meðan rumurinn batt á Veskislausa-Gavon rembihnút.

Að þessari vígsluathöfn lokinni var Gavon samþykktur inn í föruneyti Ljenzherrans þó lemstraður væri.


Framhald á morgun.

Engin ummæli: