föstudagur, 27. ágúst 2004

Á menningarnótt
Eins og áður sagði hírðist Ljenzherrann einn inni á bókasafni og horfði á á það af flugeldasýningunni sem að “Radison SAS hótel Saga” skyggði ekki á með tilkomikilli nafngift sinni. Ljenzherrann stóð í myrkrinu við gluggann og honum fannst sem hann ætti heldur að vera staddur á fallegum stað við Faxaflóann þar sem hann gæti horft á tvöfalda flugeldasýningu, á hafi og himni. Með bringuna upp að bakinu á sjer kærkominni stúlku og hendurnar vafðar utanum hana að framan myndi hann sóma sjer vel. Væri ferskt sjávarloftið honum ekki nóg gæti hann alltaf hert örlítið takið á stúlkunni sinni og fundið ilminn af hári hennar leika við skilningarvitin.

Að flugeldasýningunni lokinni myndi Ljenzherrann snúa henni með ákveðnum en mjúkum hreyfingum, horfa í augu hennar en síðan myndu þau bæði ljúka þeim aftur, því að suma hluti er betra að gera með lokuð augun.

Eftir því sem að Ljenzherrann komst lengra í þessum þankagangi reyrði hann fastar á sjer handleggina sem lágu í kross framan á bringunni. Í svoleiðis stellingum er hann jafnan þegar hann er að fussa og sveia yfir einmanalegu hlutskipti sínu í lífinu og tilverunni.

Ljenzherrann hrökk upp af draumi sínum, horfði á glampann sem að stærstu raketturnar vörpuðu á forsíður stærðfræðitímaritanna og óskaði sjer þess að mistök hefðu ollið því í “almættisins pappírs og skipulagsdeild” (APOS) að handriti af amerískri ungmennasápu hefði óvart verið ruglað saman við örlög sín.

Ýmislegt í lífi Ljenzherrans myndi breytast við þetta. Hann fengi til að mynda á færibandi fallegar og geðgóðar kærustur og honum yrðu skammtaðar hnyttnar athugasemdir við öll tækifæri. Reyndar úir og grúir af þrælmögnuðum tilsvörum í huga Ljenzherrans, en þau fæðast yfirleitt korteri of seint. Það þýðir ekkert að svara fyrir sig löngu eftir rifrildi eins og kemur fram í eftirfarandi sýnidæmi.

Verið velkomin í sýnidæmi eitt. Ljenzherrann reifst við Stjána rudda í gær, en Pabbi hans Stjána er sjómaður og gefur Stjána reglulega nýjan leðurjakka og karton af "Wirgley´s" tyggigúmi frá Ammríku. Stjáni er því mjög töff og í gær lenti Ljenzherrann í rifrildi við Stjána. Ljenzherrann rekst á Stjána daginn eftir:

“og þá þyrfti ég að keyra ótrúlega hratt fram hjá húsinu þínu!!”
-“Bíddu hvað meinarðu eiginlega???”
“Æi.. manstu ekki, við vorum að rífast í gær um stelpnasöngsveitina "Nylon" og þú sagðir að það mesta sem að gæti orðið úr mjer væri að keyra ruslabíl..”
“... og afhverju myndirðu þá keyra hratt fram hjá húsinu mínu????”
“Já... ....æi manstu ekki.... ...þarna eins og í hafnfirðingabrandaranum..”
-“Ég á heima í smáíbúðahverfinu og glætan að ég færi að ræna ruslabíl... Oh! Ýkt glataður gaur, komiði stelpur!”
Og þar með er Stjáni ruddi farinn út að tyggja gúm með Sollu og Stínu.


Vonandi fær Stjáni ruddi slitgigt í kjálkana.

Engin ummæli: