mánudagur, 30. ágúst 2004

Ljenzherrann hjelt sjer þurrum helgina fyrir verzlunarmannahelgi og meira að segja sjálfa verzlunarhelgina og næstu tvær helgar eftir það. Þessar sjálfspyntingar fóru fram í nafni menntunar og sjálfsbetrunar, en Ljenzherrann fór í sumarpróf eins og frægt er orðið.

Síðastliðinn laugardag var komið að Ljenzherranum að setja upp stromphatt og súpa brennivín. Óhætt að segja að hann hafi unnið upp allt það sem að hann missti úr og meira til. Sunnudeginum eyddi Ljenzherrann í fleti sínu og þar sem meðvitundin gerði honum reglulega þann greiða að svífa á braut þorði hann ekki öðru en að liggja í læstri hliðarlegu svo hann myndi ekki kafna á eigin tungu og líkamsvessum.


Þann tíma sem að meðvitundin gerði Ljenzherranum þann óleik að vera til staðar lá hann og skalf. Grófpússaður veggurinn veitti honum alla þá afþreyingu sem hann þarfnaðist enda hefir heilabúið sennilega minnt á einskismannsland milli tveggja skotgrafa, sundurtætt af gleði og glaumi síðustu nætur. Örfáar taugaveiklaðar heilafrumur sáust á rjáli en þær eyddu öllu öllu sínu í að stara skíthræddar á heilaveggina þess viðbúnar að þeir seyti yfir þær áfengi.

Klukkan fimm var snöggur endir bundinn á aumingjaskapinn þegar síminn hringdi og Ljenzherrann var vinsamlegast beðinn um að drulla sjer á fætur og merkja fyrir miðlínunum á nýmalbikaðri Reykjanesbrautinni. Ljenzherrann ráfaði af stað út en var þungt hugsi um hvort að hann væri í rjettu hugarástandi fyrir slíkt ábyrgðarstarf þar sem að línur eru í eðli sínu beinar.

Ljenzherrann settizt inn í stórglæsilegan trukk sinn og setti hann í gang. Á bílastæðinu voru tveir litlir piltar grandalausir í boltaleik þegar fegurðarskyni þeirra var misboðið þegar Ljenzherrann ók framhjá þeim. Annar þeirra öskraði á eftir Ljenzherranum að hann ætti að henda bílnum í ruslið. Piltur þessi er greinilega vanur almennilegum ruslakörfum þar sem bifreiðin er 2,3 tonn.

Engin ummæli: