föstudagur, 20. ágúst 2004

Ljenzherrann þarf á mánudaginn næsta að kveða niður skrímsli úr forneskju, Stærðfræðigreiningu 2B. Margur góður drengurinn hefir mátt þola að rúlla niður eigin mannvitsbrekku eftir viðureign við þetta skrímsli enda dugar engin læst hliðarlega á svona skaðræðis gerpi.

Þeir eru margir steinarnir á vegi Ljenzherrans til dæmis: Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi, stofnföll og nákvæmar afleiðujöfnur. Heildun falla af tveimur breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í tvöföldu heildi. Margföld heildi. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss. Svo fátt eitt sje nefnt.

Mynd:

(töfrar myndarinnar hjer að ofan sjást ekki nema mjólk sje sett í kaffið (gert hjer til hliðar -> ). Að öllu jöfnu þarf mikla mjólk og þeim mun meira af kaffi til að skilja eitthvað í þessari blessuðu stærðfræðigreiningu 2)


Sakir þessa hefir Ljenzherrann haldið sig á bókasafni VR tveggja í góðviðrinu og urrað á þá sem hafa mælt við hann um sól, gott veður, afsláttarkjör á samkvæmisklæðnaði eða annað slíkt.

Í öllu annríkinu er eina nautnin sem að Ljenzherrann hefir getað veitt sjer síðastliðnar vikur sú að þvo sjer um hendurnar. Þá læðist hann frá skruddunni, læsir sig inni á salerni , lætur heita vatnið renna, makar sápu á hendurnar á sjer, gælir við sleipa fingurna og lýkur aftur augunum i unaði sínum. Svo skolar hann lúkurnar upp úr sjóðandi heitu vatni, þurrkar þær með "lotus professional" pappírnum, sem skólinn í örlæti sínu skaffar. Síðan síðan heldur Ljenzherrann af stað í aðra orrustu gegn þessu skaðræðis skrímsli, endurnærður á sál og líkama.

Engin ummæli: