fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Þau tíðindi gerðust á bókasafninu í VR2 að tölublað af tímaritinu ,,Numerical Methods in Fluids" var tekið úr hillu sinni. Ekki var það svo að Ljenzherrann væri æstur í að kynna sjer það sem þetta sjerstaka tölublað hefir uppá að bjóða heldur var þetta gert að ósk lítillar flugu. Flugan hvíslaði því nefnilega að Ljenzherranum að eitt sinn hefði hún náð að gægjast yfir öxl manns sem sat á bókasafninu og var að lesa greinina ,,Numerical Studies on Effect of Valve Performance on Pressure Surges During Pump Trip in Pumping Systems with Air Entrainment" sjer til ánægju og yndisauka. Aðspurð þótti flugunni þessi grein ákaflega spennandi og varð gersamlega heilluð, enda er tölulega kyntröllið T.S. Lee afbragðs penni með mjög lifandi og skemmtilegan stíl. Flugan bætti því einnig við að efni sem þetta væri henni ákaflega hugfengið enda væri hún orðin virðingarverð háskólafluga með sjóndeildarhring og áhugasvið eftir því.

Ljenzherrann fór næstum því að gráta því að honum fannst svo leiðinlegt að flugan gæti ekki náð í þau rit sjálf sem hana fýsti að lesa og náði því í þetta sjerstaka rit og fletti greininni upp. Flugan beið spennt út í glugga og setti sig í stellingar. Ljenzherrann hafði heyrt því fleygt að flestar flugur, sjerstaklega langskólagengnar fiskiflugur, væru sjóndaprar og reyndi því að halda bókinni eins nálægt aumingja flugunni og hann gat.

Því miður vissi Ljenzherrann ekki mátt sinn og megin því aumingja flugan kramdist óvart. Fánar standa því í hálfa stöng í háskólanum á þessum sólskinsdegi og vinna menn nú hörðum höndum að manna þá lektorsstöðu fyrir haustið sem flugunni hafði verið lofað. Ljenzherrann var færður út í járnum.

Þeir sem vildu minnast flugunnar geta heimsótt leiði hennar, en hennar hinsta hvíla er í hinni smellnu grein T.S. Lee ,,Numerical Studies on Effect of Valve Performance on Pressure Surges During Pump Trip in Pumping Systems with Air Entrainment."

Engin ummæli: