föstudagur, 9. júlí 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt lagði land undir fót um síðustu helgi og heiðraði Skóga með nærveru sinni. Voru innfæddir að vonum hæstánægðir með þessa viðurkenningu og Sigurður Pjetursson bóndi að ytri-skógum slátraði sínum feitasta grís og heilsteikti handa Ljenzherranum. Ljenzherrann hámaði hann í sig með húð og hári og heimtaði einnig að ein til tvær hænur yrðu snúnar úr hálsliðnum og hafðar í desert.


Hafði Ljenzherrann sent vinnuflokk á undan sjer og látið reisa tjaldborg með öllum nútíma lúxus, svo sem arabísku gufubaði og pútnahúsi. Fjekk Ljenzherrann sjer rækilega í staupinu og ljet sveina sína bera sig á skildi um tjaldsvæðið. Úr hásætinu sprautaði hann ilmvatni á þá sem honum þótti vond lykt af og gerði hróp að mannfjöldanum með ýmsum ókvæðisorðum og óhefluðu málfari.

Kavaljerinn tók á hinn bóginn ekki einu sinni með sjer svefnpoka og aðspurður um það svaraði hann drjúgur með sig að dýrslegur kynþokki komi fyllilega í stað algengs viðlegubúnaðar. Hvort það var dýrslegum kynþokka Kavaljerans að þakka að Flugbjörgunarsveitin skaut yfir hann skjólshúsi eður ei, skal ósagt látið en hann er núna með kvef.

Annað kveldið var bryddað upp á “karaókí” svokölluðu, en þá geta menn sungið “ólaskans” eða önnur vinsæl lög. Frumbert Skrumbertsson, sem lengi hafði haft það á orði að prufa slíkan útbúnað, ljet loksins verða af því. Ljenzherranum leist hinsvegar ekki betur á sönghæfileikana en svo að hann tók það að sjer að stoppa þetta bjevítans garnagaul, eins og hann orðaði það. Ljenzherrann reif af honum hljóðnemann, sló hann utanundir og batt síðan á Frumbert rembihnút og henti honum í fossinn.

Að þessu loknu setti Ljenzherrann lagið ágæta “einn dans við mig” með “Hemma” Gunn og tók til við halarófugerð. Ljenzherrann skaut tungunni út í annað munnvikið og beit örlítið í hana til að geta vandað sig sem mest við halarófugerðina. Myndaðist fyrir aftan Ljenzherrann löng röð af fólki sem skemmti sjer konunglega og lofaði mjög smekk Ljenzherrans á beygjum, en eins og allir vita er halarófa án beygja eins og rafmagnslaust tívolí. Þetta veit Ljenzherrann manna best og leggur sig því í líma við að gera sem best við fólkið og sparar hvorki beygjurnar til hægri nje vinstri.

Ekki virtust þó allir geta sætt sig við rísandi frægðarsól Ljenzherrans. Í afbrigðissemiskasti framdi sá næstfremsti valdarán í halarófunni er hann sleppti öxlunum á Ljenzherranum og hjelt sína leið. Aðskilnaðarhreifing þessi varð skammlíf og þá sannaðist hið fornkveðna að byltingin éti börnin sín, því varla var halarófan komin úr styrkri stjórn Ljenzherrans fyrr en hún leystist upp í vandræðalegan hóp af fólki með ófullnægða beygjuþörf sem klóraði sjer í hausnum og baðst “pardón” á ýmsum hlutum.

Hópur dansandi manna hjelt sig í grennd við hljómtækin og þar innan um var peni litli pennastrákurinn. Fjell hann ágætlega inn í hóp þessa dansandi manna þó hann væri einungis að berjast við að halda jafnvægi. Pena litla pennastráknum hefir löngum þótt sopinn góður.

Engin ummæli: