laugardagur, 26. júní 2004

Hamarinn, lífið og tilveran.
“já er þetta stærsti slaghamarinn sem þú átt, fröken?”
“Já, fínasta og besta sort, hausinn er úr einu og hálfu kílói af ekta Krupp-stáli og skaftið er úr sjerræktaðri eik, ræktaðri af fjölskyldu sem síðastliðin þrjúhundruð ár hefir eingöngu ræktað timbur í hamarssköft við góðan orðstýr. Hausinn er festur á skaptið með “Konráðs-gæðaklístri” en það gulltryggir það að hann haldist fastur á sínum stað, sama á hverju gangi, þetta er frábær slaghamar enda fylgir með honum merkt der og bolur.”


Á meðan hún þuldi þessa dýrðarþulu fór Ljenzherrann að nudda saman lófunum og græðgisglott færðist yfir varir hans. Hún hafði vart sleppt orðinu fyrr en að Ljenzherrann var farinn að sjá sjálfan sig fyrir sjer í fína slaghamarsbolnum, með derið á höfðinu og hamarinn í hægri lúkunni. Þumallinn þeirrar vinstri var svo að sjálfsögðu beinstífur upp í loptið til að gefa til kynna hve lukkulegur Ljenzherrann væri með hamarinn, lífið og tilveruna. Þetta þótti Ljenzherranum stórkostleg tilhugsun þannig að hann dúndraði krepptum hnefanum í borðið.

ÉG ÆTLA AÐ FÁ ÞRJÁ FRÖKEN!!!!” öskraði Ljenzherrann og honum brá satt að segja við lætin í sjer þannig að hann tuldraði “ef þú vildir vera svo væn.... ...fröken” skömmustulegur á svip örlitlu seinna.

Ljenzherrann stikaði spozkur á svip með pokann út úr Húsasmiðjunni og hugsaði sjer gott til glóðarinnar, að geta klætt sig upp og farið að berja með nýju og fínu slaghömrunum sínum. Hann brunaði af stað í embættisbifreið sinni og skeytti óvanalega lítið um aðra umferð. Þegar hann var kominn á áfangastað henti hann sjer út úr bílnum og fjell rakleiðis niður í bónorðsstellingarnar.

Ljenzherrann setti á sig “Hammerschaft-Beispielklopft”derið, greip meitilinn og stillti honum upp með sterklegum vinstri handleggnum. Vöðvarnir í hinum hægri herptust allir og urðu stinnir og glansandi á meðan þeir reiddu hamarinn á loft. Ljenzherranum þótti nautn að hamrinum og á meðan hamarinn var í hæstu stöðu var eins og tíminn stæði í stað, vindurinn hætti að blása, fuglarnir kvökuðu ekki og meira að segja fulli Grænlendingurinn á bryggjunni tók sjer hlje frá tómstundariðju sinni, “fokkjú”merkjasendingum og munnhráka. Brátt reið höggið af og lífið á Hafnarfjarðarhöfn komst aftur í sinar hefðbundnu skorður.

Þegar Krüpp-stálið small á meitlinum smaug hann ofan í þjappað bögglabergið eins og sleif í óhefað jólakökudeig. Ljenzherrann hló og glotti, honum fannst hann mikill kall. En eitt högg var auðvitað ekki nóg, hann vildi annað, og annað fjekk hann og meitillinn fór á bólakaf!!!!

Ljenzherrann glotti og skakaði meitlinum til og frá ofan í holunni með valdsmannslegum tilburðum, hann hafði sýnt honum í heimana tvo.

Eftir þetta fjekk Ljenzherrann eigi hamið sig, gekk berserksgang og lamdi allt sem lamið hann gat með hamrinum sínum góða. Stóra grjóthnullunga barði Ljenzherrann þar til þeir voru orðnir að sandi og Ljenzherrann klifraði upp á ljósastaurana og barði þá á bólakaf niður í jörðina þannig að þeir komu upp hjá andfætlingum. Ollu þeir þar miklu havaríi og fengu að minnsta kosti einn miðaldra bankagjaldkera til að trúa á skrýmsl.

Gömul kona komst einnig stórkostlega hættu um stund, en Ljenzherrann fjekk skyndilega mikinn áhuga á því að kanna hjá henni viðbrögðin með því að berja “ljett” í hnjeskeljarnar. Sem betur fer kom Ljenzherran auga á sjerstaka embættisbifreið sína áður en hann komst í að rannsaka þá gömlu. Í Ljenzherranum hefir nefnilega blundað allt frá unga aldri sú hugmynd að reyna að troða bifreið inn í mjólkurfernu og loka henni svo aftur. Myndi hann síðan setja fernuna í ísskáp og grípa um vömb sjer og hlæja stórkallalega er einhver færi á því flatt, að fá sjer mjólk í kaffið. “Bara með bíl í kaffinu!!!” myndi hann svo segja. Það varð því með aðstoð hins ágæta hamars og hinnar mklu atorku Ljenzherrans sem að sjerstök embættisbifreiðin endaði í mjólkurfernu þennan daginn.

Nú kom Ljenzherrann auga á stærðarinnar skuttogara sem lá við bryggju. Ljenzherrann hljóp af stað og reiddi hamarinn á loft. Hann galt hverri landtauginni sitt höggið þannig að þær hrukku í sundur eins og þær væru úr soðnum hveitistöngum ítölskum. Svo hljóp hann aftur fyrir skut og reiddi hamarinn svo rækilega á loft að Ljenzherrann yfirgaf jörðina um stund, en svo á niðurleiðinni kom höggið. BÚMM!!! Fuglar flugu af hreiðrum, jarðskjálftamælar rumskuðu, gamlar konur jesúuðu sig og dallurinn rauk af stað og stoppaði ekki fyrr en eftir þrjá hringi í kringum jörðina.

En af Ljenzherranum er það að segja að járnflís skaust úr ryðkláfinum og beint í Ljenzherrans hægra auga, (augað sem hann notar til að gefa stúlkunum).

Því situr Ljenzherrann nú uppi á slysavarðstofu og bíður þess að læknirinn láti sjá sig til að krukka í glyrnunni. Ljenzherrann, sem ekki er þekktur fyrir að falla verk úr hendim, brúkar því tímann til að færa það til bókar sem er bæði satt og rjett.

Af Ástralíu er annars allt gott að frjetta, en þar er bæði ágætis neyzluvatnsdreifikerfi og kengúrur.

Engin ummæli: