fimmtudagur, 20. maí 2004

Það tekur ætíð örlítinn tíma að aðlagast nýju umhverfi á sumrin. Í kaffitímunum í Háskólanum ræða menn ákveðin tegur, diffurjöfnur, hlutafleiður, normaldreifingar, log-normaldreifingar og jafnvel log-Pearson type III-dreifingar, ef mikill hugur er í mönnum. Í kaffitímanum í vinnunni í dag voru rússneskir traktorar og hraðtengi á gröfur til umræðu.

Umbreyting Ljenzherrans úr pennastrák til harðsvíraðs gröfumanns er nú alger því hann tók virkan þátt í samræðunum og hafði margt til málanna að leggja.

"Já hraðtengi, Miller, bara drasl, skröltir og brotnar, ætti frekar að fá sjer rótortilt, með innbyggðum glussatengjum, já það er sko hraðtengi í lagi, flott á hjólagröfur, Ræktó er með tvö svoleiðis, bara hægt að smella tiltskóflunni á og grafa fullan mótor, upplagt í flága, einn á móti fjórum kanski, tvöfaldur dekkjagangur er samt eina vitið á hjólavjelar, smurkerfi, já, það er sko málið, miklu minna slit, fer ekki jafn illa með fóðringarnar, skelfing eru spyrnurnar slitnar á sexunni, hann kann sko ekki að rippa fyrir fimmaura hann Haraldur, vantaði þrjá lítra hjá honum af mótorolíu og hann var hissa að draslið skyldi drepa á sjer, fylla bara reglulega á með Esso special Diesel motoroil, 15-40W, ekki hika við það, mæli með henni, tellus, ég nota tellus, besti glussinn, var ekki 450 vjelin með tveim glussadælum? jú mjer sýndist það, dugar ekkert minna í svona skessur, er ekki annars komið jæja á okkur strákar?????

Jafnvel þó svo að Ljenzherran beri sjerstakt traust til "log-pearson type III" dreifingarinnar, og reyndar flestra hluta sem bera jafn tilkomumikil nöfn, ber hann jafnvel meira traust til "jæja".

"Jæja" er einn af þessum óumflýjanlegum hlutum sem virðast greftraðir í mannskepnuna, því jafnvel þó svo að kallinn sem segir alltaf jæja, sje veikur, þá segir bara einhver annar jæja í staðinn.

Jæja er svona eins og gula ljósið í umferðinni, "gerið ykkur tilbúna strákar, tæmið bollana, hendur á hnje......ogstandupp!!!"

Hvað ætli það heyrist mörg "jæja" í vinnuskúrum og kaffistofum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið um klukkan 10, 13 og 16?

Engin ummæli: