mánudagur, 17. maí 2004

Ljenzherrann hefir prófum lokið. Próflestur sem þessi setur allt á annan endann í toppstykkinu og ber því að taka örlítið til að honum loknum. Fróðleik og reiknileikni er umsvifalaust eytt, en oft situr þó eitthvað eftir sem verður að skola út með áfengi.

Slíkt hreinsunarstarf fór fram í gær með glæsibrag. Ljenzherrann þykist þess nú viss að hann hafi skolað úr höfði sjer öllu því sem við kom vorprófunum, og gott betur en það.Ljenzherrann sýndi af sjer mikla kátínu þrátt fyrir að Júróvísí-Jón skyldi einungis hala inn 16 stig fyrir landið og miðin. Að söngvakeppninni lokinni var Hemma Gunn skellt á fóninn og dansað var á öllum borðum undir því ágæta lagi “einn dans við mig” sem svo oft hefir komið Ljenzherranum í gott skap.

Amor gamli refur var einnig á ferð með bogann sinn góða og var ekki spar á örvarnar. Amor skaut einni pena litla pennastráknum í hjartastað, sem í kjölfarið gerðist helst til fjölþreifinn og sýndi á sjer nýjar hliðar. Eitur Amors gamla var svo magnað að peni litli pennastrákurinn gerði lítið annað en að kíma framan í stúlkurnar og senda þeim seiðandi augnarráð yfir flöktandi kerti og hálffull bjórglös.

Ljenzherrann gerði sjer reglulega erindi svo hann gæti fylgst með Pena litla pennastráknum athafna sig. Ljenzherrann tók eftir því að Peni pennastrákurinn, sá litli dólgur, minnti einna helst á smjerlíkisstykki sem verður alltaf mýkra og mýkra eftir því sem stúlkurnar hnoða það betur með höndunum. Ljenzherran hafði af þessur miklar áhyggjur enda var ljóst að ekki var langt í að Peni litli pennastrákurinn yrði svo mjúkur að kynfæri hans myndu innhverfast á rönguna, en það er alþekkt vandamál.

Ljenzherrann hyggst beita sjer fyrir því að þetta verði rannsakað nánar og mun í náinni framtíð tjakka pena pennastrákinn upp til að kíkja undir hann og athuga hvort að einhvurjar millilappagersemar hafi orðið fyrir hnjaski.

Þrátt fyrir að Ljenzherrann væri sjerstaklega var um sig þetta kveldið náði Amor að skjóta í hann nokkrum örvum úr launsátri. Því sem eftir lifði af kveldinu eyddi Ljenzherrann í eltingarleik við unga snót sem hann taldi öðrum ágætari. Átti stúlkan hug hans og hjarta og var hann mjög riddaralegur í hátterni og framkomu. Sýndi einhver af sjer dónaskap eða óheflað orðbragð í návist stúlkunnar tók Ljenzherrann að sjer að verja heiður hinnar mætu meyjar og skoraði á durtana í burtreiðar. Sakir skorts á brúkanlegum hrossum og lensum varð af lítið slíku. Ljenzherrann reyndi þó að semja við dyraverðina um að fá þá til að gegna hlutverki hrossa, en all kom þó fyrir ekki.

Engin ummæli: