þriðjudagur, 1. júní 2004

Kavaljersins flauel og fagurgali
Kavaljerinn af Kölnarvatni hringdi áðan í Ljenzherrann. Var honum mikið niðri fyrir og bað Ljenzherrann að hitta sig í Hressingarskálanum til skrafs og ráðagerða.

Kavaljerinn var mættur á staðinn er Ljenzherrann bar að garði og dreypti geðshræringarlega á skrautlegum drykk í háu glasi. Ljenzherrann sezt hjá honum og pantar sjer einn sjeníver.

“Þetta er búið,” segir Kavaljerinn, “þeir ætla að setja á mig kvóta”
“o sei sei” segir Ljenzherrann, skellir í góm og fær sjer sopa.

Kavaljerinn af Kölnarvatni hefir hingað til talið sig vera á sóknardagakerfi og gert út allar helgar. Veiðarfærin eru flauel og fagurgali og er flauelið svo fínriflað að jafnvel hinar minnstu bröndur sleppa ekki fram hjá Kavaljernum, sem hingað til hefir þó verið meira fyrir þær feitu. Fagurgalinn hefir ýmisskonar áhrif á stúlkur, sumar fá stjörnur í augun á meðan aðrar finnast þeim renna blóðið til skyldunnar og gefa Kavaljernum rækilega á lúðurinn.

Að eigin sögn hefir veiðin ávallt gengið ákaflega vel hjá Kavaljernum og hann landað hverri bráðinni á fætur annarri. Það skyldi því engan undra að Kavaljerinn hleypi í brún yfir þeim áformum ríkisstjórnarinnar að leggja niður sóknardagakerfið og þar af leiðandi setja á hann kvóta.

“Það er annars búin að vera bölvuð bræla og varla hægt að draga sporð á land í þessari gúrkutíð”Ljenzherrann jánkar við þessu og hristir upp í glasi sínu. Kavaljerinn gleypir því næst hálfkláraða setningu og gerir hlje á samtalinu til að gera sig til fyrir kvenmanni sem slysast fram hjá borðinu á leið sinni á salernið.

Þegar hún er rokin í burtu tautar Kavaljerinn fyrir munni sjer: “þeir fiska sem róa... ....þeir fiska sem róa” og nuddar á sjer sára kinnina.

Engin ummæli: