sunnudagur, 2. maí 2004

Af samkvæmisljóninu Ljenzherranum.
Ljenzherrann brá undir sig betri fætinum um síðustu helgi. Ljenzherrann burstaði jakkann sinn, pússaði skóna, pressaði buxur sínar og skyrtu og kórónaði alltasamant með því að hnýta sjer tvöfaldan Windsor.

Áður hafði hann eytt deginum í freyðibaði, marinerað sjálfan sig upp úr ýmsum olíum og vellyktandi. Einnig hafði hann átt í hörkurifrildi við gúmöndina sína sem duggaði um í skýjaþykkni freyðibaðsins, og snjer stjelinu í eiganda sinn

Þegar baðinu var loksins lokið tók Ljenzherrann til við að bera á sig framandi smyrsl af ýmsum toga, hvert og eitt með skerstakt hlutverk og afmarkað athafnasvæði. Fór verknaðurinn fram í skjóli þess að Ljenzherrann kýs andlegt heilbrigði og líkamlega vellíðan.

Eftir kremseremóníuna var Ljenzherrann í sjerdeilis góðu skapi, og blikkaði sjálfan sig á milli þess sem hann gretti sig framan í spegilinn og skóf skeggið af andlitinu. Ljenzherrann rak svo smiðshöggið á raksturinn með kvettu af ,,Old Spice.”

Eftir að hafa klesst brilljantínklessu í hárið á sjer leit hann í spegilinn, og glotti. Tennurnar glitruðu og hárið glansaði. Ljenzherrann var ómótstæðilegur, hvernig sem á það var litið.

Dyrabjallan hringdi og Ljenzherrann hrökklaðist frá speglinum, hann fann á lyktinni hver væri kominn. Í dyragættinni stóð Kavaljerinn af Kölnarvatni í öllu sínu veldi. Brennt barn forðast eldinn, Ljenzherrann læsti ömmu gömlu inni í herbergi og opnaði síðan fyrir Kavaljernum.

Ljenzherrann setti gamla söngva og dansmynd í tækið og saman sátu þeir fjelagarnir að sumbli. Sátu þeir þöglir og fylgdust fólkinu bresta í söng og dans, í gegnum botninn á glösunum sínum. Loks fór Kavaljerinn að segja af sjer bósasögur, þá vissi Ljenzherrann að tími væri kominn á að hringja á bíl.

Á leiðinni í leigubílnum sammæltust Ljenzherrann og Kavaljerinn um að leita hina einu rjettu uppi. Kavaljerinn sá sína um leið og hann steig út úr leigubílnum og bauð henni í trekant ásamt herra Ingólfi Arnarsyni, sem reyndar er úr bronsi.

Ljenzherrann leitar hinsvegar enn.

Engin ummæli: