föstudagur, 30. apríl 2004

Um síðastu helgi lagði Ljenzherrann af Kaffisterkt land undir fót og yfirgaf óðal sitt í Gevalíu. Ferðinni var heitið í kauptúnið “Akureyri”. Á norðurleið beitti hann brellum og gaf upp misvísandi upplýsingar um staðsetningu og gat því vakið talsverða undran er hann skaut upp kollinum, fimm mínútum eftir að hafa sagst hafa verið í góðu yfirlæti í knæpunni “Staðarskála” við kaffismökkun og hræruprófanir.

Eftirfarandi er úrdráttur úr Reisubók Ljenzherrans af Kaffisterkt.

Í þessarri opinberu heimsókn varð ég margs vísari um siði innfæddra. Jörðin er almennt talin flöt, galdrabrennur eru haldnar annan hvern fimmtudag og vinstri-umferð er enn í háveigum höfð. Vinstri-umferðin ylli án efa talsverðum vandkvæðum fyrir sunnanmenn ef að umferð væri teljandi. Eigi var ég nú svo heppinn að vera viðstaddur galdrabrennu en ég sá mann sem brenna átti í næstu viku. Var honum gert að dúsa í gapastokk fyrir framan hótel-KEA. Hafði hann sagað í sundur fínar frúr á opinberri skemmtan, án tilskilinna rjettinda. Átti ég og fróðlegt samtal við monthænsn eitt mikið sem kvaðst sjeð hafa hvar jörðin endar og í trúnaði kvaðst hann einnig hafa migið í hyldýpið, sjálfum sjer til skemmtunar. Þóttu mjer þetta tíðindi lítil þar sem að ég hefi komið til Affríku en þar eru allir menn svartir sem kol, með rauðar varir og heita Sambó.

Einnig fjekk ég tækifæri til að totta friðarpípu með stiftamtmanninum og íslenska konsúlnum á “Akureyri”. Ég hrósaði stiftamtmanninum fyrir gott stifti og þakkaði gestrisnina með framandi drykk, kaffisterku, og reiddi það fram í Depa-málum. Að sjálfsögðu fengu þeir sína hræruna hvor, stiftamtmaðurinn og konsúllinn. Gerðu þeir góðan róm að þessum unaðsdrykk sem þeir hrærðu í eins og þeir ættu lífið að leysa, enda með alvöru Depa-hræru í höndunum. Hrærurnar kölluðu þeir þvörur, enda báðir tveir villimenn frá “Akureyri”.
Ein er sú stjett á “Akureyri” sem blómstrar öðrum fremur en það eru skófægjarar. Heimamenn skilja nefnilega við hross sín þar sem þeim sýnist á meðan þeir höndla þannig að varla er þverfótað þar fyrir hrossaskít, virðulegum Ljenzherra til mikils ama.

En það sem að Ljenzherranum þótti merkilegast í þessari ferð var það er hann flaug til baka ásamt hirð sinni með TF-JMS. Lengi hefir sá siður tíðkast að reiddar séu fram veitingar fari flugvél á milli sýslna og eigi brást þeim flugfjelagsmönnum bogalistin að þessu sinni. Mjer var skipað til sætis 7D að heldrimanna sið og við hlið mjer sat maður sem sagði eigi stakt orð alla leiðina, kann ég honum bestu þakkir fyrir.
Varla var rellan búin að hífa upp hjólin fyrr en skælbrosandi flugfreyjan fór að dæla veigum til þeirra sem þær vildu og eigi þurfti að afsaka samtíninginn. Þegar röðin kom að mjer og sessunaut mínum, honum 7C, þá þáði hann vatn en ég auðvitað kaffi. Eg hugðist nefnilega njóta mín í háloftunum, eiga notalega stund, rjett eins og í Morgunblaðsauglýsingu.
Mikil skemmtan var samfara því þegar hún hellti í bollann því að þá vildi svo skemmtilega til að mikil ókyrrð var í lofti. Eptir mikla fimleika rjetti hún mjer svo bakka með kaffibollanum. Ég greip bollann af bakkanum og tók vænan sopa. En Adam var ekki lengi í paradís, áður en ég náði að kyngja rak ég augun í svolítið stórmerkilegt. Á bakkanum voru einnig tvær gerðir af hrærum, Depa og RPC!!!

Varð mjer nú svo um og ó að mjer svelgdist á og frussaði þessum líka fína sopa í hárið á fröken 6D. Ég ætlaði mjer svo að ryðjast á fætur til að hneigja mig í afsökunarskyni en fattaði eigi fyrr en of seint að ég var ólaður niður í sætið. Hinn ágæti herra 7C fékk því einnig sinn skammt af kaffi.
Það var einmitt á þessu augnarbliki innan um kaffivota samferðamenn sem að Ljenzherrann af Kaffisterkt táraðist og varð alveg gjörsamlega kjaftstopp.
Að lokum útskýrði hann klökkur fyrir fröken 6D og herra 7C að þó svo að hann væri aðalborinn og miklu fínni pappír en þau hefði honum aldrei um hans hunds og kattartíð verið sýnd slík tillitssemi og virðing, að fá að velja sjer tegund hræru. Flugfélag Íslands væri greinilega alvöru fyrirtæki sem ekki væri að ráðsgast með þarfir viðskiptavina sinna og þröngva upp á þá hrærum. Að auki hjelt hann stutt erindi um Depa- mál og hrærur, gæði þeirra og kosti. Auk þess sem hann minntist í framhjáhlaupi á það hve fröken 6C hefði stóran haus.


Eftir að hafa hlýtt á útskýringar síns velættaða samferðamanns báðust bæði herra 7C og fröken 6D afsökunar. Afsökunarbeiðnina tók Ljenzherrann góða og gilda og pantaði sjer annan kaffibolla.

Líkur hjer með frásögninni af ferð Ljenzherrans af Kaffisterkt til Akureyrar.

Engin ummæli: