þriðjudagur, 13. apríl 2004

Ljenzherrann vann síðasta sumar við að klára endurbæturnar á Reykjavíkurflugvelli og fjekk hann “Hella rotafix” blikkljós til afnota ásamt áföstum toyota touring. Blikkljósið var spánýtt, en ökutækið mátti muna sinn fífil fegurri og var sneysafullt af mold, gosdósum og hálfétnum samlokum. Ljenzherranum var treyst fyrir því að aka á flugbrautunum og fjekk hann talstöð til samskipta við flugturninn, en eigi mátti hreyfa sig spönn frá rassi án heimildar frá turninum.

Ljenzherrann var einu sinni sem áður, að sporta sig um sjer til afþreyingar. Ók hann vítt og breitt um flugvöllinn á ryðkláfinum með blikkljósinu skæra og hafði flugturninn fullt í fangi með afturkalla lendingarheimildir hjá nærstöddum flugvélum svo Ljenzherrann gæti stundað sína skreppitúra í hinu fyllsta öryggi.Ljenzherrann var með rúðurnar niður og bergmálaði graðhestarokkið um næsta nágrennið. Hann hafði verið nýbúinn að skreppa í sjoppuna og var í meira en fullu starfi við að keyra, háma í sig samloku með roastbeef og remúlaði, fá sjer sopa af dósagosi, biðja flugturninn um heimildir hingað og þangað auk þess sem hann var að spjalla í farsímann við konu frá “sameinaða lífeyrissjóðnum” um “sparileið 3,” kosti hennar og galla.

Allt í einu vaknar Ljenzherrann upp við það að hann er kominn í miðja opinbera móttöku. Rauður dregill hafði verið dreginn út, í annan endann var tignarleg einkaþota en í hinn voru öll helstu fyrirmenni landsins okkar búin að raða sjer upp í sínu fínasta pússi. Meðfram dreglinum sitt hvorum megin var röð af lögreglumönnum sem gerðu honnör fyrir öllu saman. Í bakgrunni var búið að draga ýmsa þjóðfána við hún og ekki langt undan stóðu svartar drossíur í löngum röðum.

Ljenzherrann fylltist stakri aðdáun af öllu saman, hagræddi kaskeitinu sínu og missti sig í dagdrauma um komandi frægð. Ekki leið á löngu þar til flugturninn fór að ybba sig. Fjekk Ljenzherrann þau skilaboð að hann ætti að láta sig hverfa í einum hvínandi hvelli. Ljenzherrann var nú ekki á þeim buxunum heldur ók að dregilendanum og parkeraði druslinni fyrir framan Dabba og Óla. Í þessu kom Róbertson lávarður niður dregilinn og hlaut höfðinglegar móttökur hjá Ljenzherranum af Kaffisterkt. Skaust Ljenzherrann út úr druslunni, stillti sjer upp blýsperrtur, gerði honnör og sló saman hælunum, svona til að undirstrika hátíðleik stundarinnar. Kraup Ljenzherrann svo á knje og kyssti á lávarðinum alla fingurna.Áður en Ljenzherrann rauk út hafði hann stillt útvarpið á gömlu gufuna, en þar var Gerður G Bjarklind að spila argentínskan tangó. Ljenzherrann sem er hverjum manni liprari á dansgólfinu greip við svo búið danstökin á Robertsyni og tók lávarðinn með sjer í nokkur spor." one.. two.. þrír.. fjór.. fimm.. mister Robertson..." Öskraði Ljenzherrann í takt við lagið og túlkaði með líkama sínum allan þann losta og kynþokka sem nauðsynlegur er í argentínskum tangó. Að laginu lokni smellti Gerður sjer í “Dánarfregnir og jarðarfarir” og Ljenzherran þakkaði fyrir dansinn.Lávarðurinn stóð stjarfur á meðan Ljenzherrann bauð hann hjartanlega velkominn á ýmsum tungumálum, opnaði afturhurðina á bílhræinu og sópaði hálfétnum samlokum og gosdósum úr aftursætinu niður á rauðan dregilinn. Að þessu loknu hneigði Ljenzherrann sig djúpt.

Robertson lávarður kinkaði kurteislega kolli, vandræðalegur á svip. Var hann varla kominn inn í bílinn fyrr en Ljenzherrann var búinn að skella hurðinni með miklum myndarbrag en síðan settist hann í bílstjórasætið og setti í gír. Toyotan var látin taka á öllu sem hún átti og brátt sást ekkert nema gulur bjarmi “Hella rotafix”blikkljóssins lengst út í fjarskanum.

Fyrirmennin íslensku hlupu sem fætur toguðu upp í svartar drossíurnar sem eltu svo ryðguðu blikkljósum prýdda drusluna um borg og bí í hátíðlegri halarófu. Vakti fyrirtækið mikla athygli, enda skín stjarna hella rotafix afar skært auk þess sem afar prúðbúinn maður sat í aftursætinu, með svip sem þeir einir geta sett upp sem sitja í túnfisksalati.

Ljenzherrann var hinsvegar rósemdin uppmáluð. Var hann varla búinn að setja í 2. gír fyrr en hann var búinn að laga til baksýnisspegilinn þannig hann sæi framan í lávarðinn viðmælanda sinn og sagði svo:

”So how do you like Iceland, mr Robertson... ...would you like some grænn tópas”

Engin ummæli: