fimmtudagur, 15. apríl 2004

Ljenzherrann er nú fullur samúðar með föður sínum. Greyið kallinn sat í dag með nýfætt stúlkubarn sitt í fanginu og er ekki enn laus við frumburðinn, sem er 23 ára. Samkvæmt þessu verður hreiðrið ekki orðið ungalaust fyrr en haninn er orðinn rúmlega sjötugur, en þá verður hann búinn að fella flestar fjaðrirnar.En hvað um það, Ljenzherrann var að fara að sækja um sumarstarf og bað föður sinn um að lesa umsóknina yfir, sem Ljenzherrann af Kaffisterkt hafði sett saman af alkunnri hæverzku.

Í umsókninni tíundaði Ljenzherrann alla sína kosti og fleiri til. Einnig fann hann hugvitsamlega upp á ýmsum dyggðum og laug þeim samvizkulaust upp á sig. Hann sagðist gull vera af manni, dagfarsprúður drengur og hvers manns hugljúfi, svo trompaði hann alltsamant með geislabaug. Einnig sagðist Ljenzherrann búa yfir yfirgripsmikilli starfsreynslu auk þess sem hann státaði sig af stórkostlegri tungumálakunnáttu og þóttist rita og tala reiprennandi 24 tungumál hið minnsta. Sum þeirra voru meira að segja svo sjaldgæf að enginn kann þau lengur nema Ljenzherrann sjálfur. Ljenzherrann er, að eigin sögn, eini núlifandi maðurinn sem getur skrifað tvö mismunandi tungumál samstundis með báðum höndum á meðan hann rökræðir tilveru þeirra himnafeðga á hinu þriðja.

Ljenzherrann sagðist rammur að afli og tveggja manna maki í allskyns þrautum, líkamlegum sem andlegum. Þess var getið að hans helsta tómstundargaman væri blindskák, reiknikúnstir, rómantísk ljóðagerð, heimspekilegar þversagnir og að beygja stór og þykk rör með berum höndunum í svani og aðra fallega fugla.Vinnubrögð Ljenzherrans þykja samkvæmt umsókninni sjálfstæð og öðrum til eftirbreytni. Ljenzherrann setti svo rúsínuna í pylsuendann með því að taka það fram að bezta sumargjöf sem ábyrgur yfirmaður gæti gefið undirtyllum sínum væri að ráða Ljenzherrans. Þá myndu allir vaxa andlega af samneyti sínu við þennan mann og hver yrði annars bróðir, í leik sem starfi.Eins og þetta væri ekki nóg þá bætti Ljenzherrann við klausu merktri “P.S.” þar sem honum þótti við hæfi að minnast á að hann hefði auga fyrir fegurð og myndi leggja sig í líma við að fegra jafnt vinnuumhverfi sem starfsfólk, enda annálaður fagurkeri og lífskúnstner.

Þegar Ljenzherrans faðir hafði lokið við að lesa þessa heimild um frumburð sinn beið hans glóðvolg broddskitubleyja, sinnepsgul lofgjörð hvítvoðungsins til stóra bróður.

Engin ummæli: