laugardagur, 24. apríl 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt og prísund fjölgunardropanna.
Allt frá því að Ljenzherrann uppgötvaði á sjer dindilinn hafa huggulegar stúlkur haft gríðarleg áhrif á kappann. Gangi hugguleg stúlka hjá þar sem Ljenzherrann staflar sementspokum, fjölgar pokunum sem hann ber í hverri ferð úr þremur í fimm.

Verst að afköstin skuli ekki aukast að sama skapi á bókasafninu þegar huggulegar stúlkur eru í sjónmáli. Þá reikar hugurinn í burtu frá þreföldum tegrum og ólínulegum diffurjöfnuhneppum og Ljenzherrann finnur hvernig fjölgunardroparnir knýja á um að þeim verði hleypt úr þaulsetinni prísund sinni.

Ljenzherrann veit sem er að stúlkur laðast að karlmennsku, hann veit að stúlkur eru þess eðlis að vilja eignast barn með þeim sem ber flesta sementspokana niðri á höfn. Þessvegna hlýtur að koma í þær eggjahljóð þegar þær sjá þann mann á bókasafninu sem er duglegastur við að reikna.

Ljenzherrann gerir því sitt bezta og skáldar hinar flóknustu formúlur úr grískum bókstöfum í rúðustrikaðar bækur sínar. Ljenzherrann gætir þess einnig að dæsa alltaf öðru hverju, svo og að ,,kveikja á perunni," en þá setur hann upp sjerstakan svip.Eftir að hafa ,,kveikt á perunni" sveigir Ljenzherrann sig allan til og frá og ritar síðan af hálfu meira offorsi en áður í bókina.

ΔΘΞΣΦ = ((β*(α+Ω)*ω)/τσ∇π)*ΔΘΛ+(Ξ*Σ*Φ*β) Q.E.D.

Allt væri þetta nú til einskis, ef Ljenzherrann hefði ekki hjá sjer reiknivjel til að hamra inn í það allra flóknasta. Duga við þann starfa engin vettlingatök.

Verði Ljenzherrann þess var að hamagangurinn vekji enga aðdáun grípur hann til þess að fletta upp flóknustu síðunni sinni og gengur að huggulegustu stúlkunni. Biður hann hana síðan um að geyma fyrir sig bókina á meðan hann skreppur á klósettið, og eftir það gefa stelpurnar honum auga.

Hann kann þetta karlinn...

Engin ummæli: