þriðjudagur, 6. apríl 2004

Af Ljenzherrans farkosti.
Er Ljenzherrann gerist farand brúkar hann reiðhjól nokkurt, sem hann nefnir “Rosinante” eftir mesta gæðingi allra tíma. Gripur þessi er sjerlega kraftmikill, og Þegar Ljenzherrann stígur fák sinn sem mest hann, þá hverfa á honum lappirnar í hringlaga þoku og má Ljenzherrann stilla sjálfan sig í hóf svo hann reykspóli ekki upp dekkjunum eða prjóni yfir sig á leið upp brekkur.

Ljenzherrann bindur bönd sín ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir og fer því jafnan miklar krókaleiðir. Fáfarnir göngustígar eru hans hraðbrautir og sýnist honum svo vílar hann það ekki fyrir sjer að bruna yfir blómabeð og matjurtagarða.

Þegar það snjóaði hvað mest nú í vetur, var Ljenzherrann í essinu sínu. Hann spændi þá hring eftir hring í kringum bílana sem sátu fastir eins og hráviðri um göturnar. Þá þótti honum gaman að benda. Væru á hinn bóginn í bílunum huggulegar stúlkur átti Ljenzherrann það til að stíga af baki og bjóða þeim aðstoð sína. Öll samtöl hóf hann á því að hneigja sig djúpt og að sjálfsögðu þjeraði hann æruprýddar ungmeyjarnar, til að valda þeim ekki ærumissi og ljótu orðspori.

Þegar öllum formsatriðum var lokið batt hann spotta í stuðarann á bílnum og í hnakkinn á “Rosinante.” Leit hann síðan við, lagaði til kaskeitið sitt, kinkaði lítillega kolli og svo stje hann fák sinn sem mest hann mátti og kom stúlkunum örugglega á áfangastað.

Væru þær sjerstaklega myndarlegar, asnaðist hann ef til vill til að bjóða þeim að gerast dús. Roðnaði hann þó yfirleitt ákaflega yfir framhleypninni og óskammfeilninni í sjálfum sjer, kvaddi kurteislega og fór hið snarasta.

Stúlka nokkur á hvítan bíl og sjálfskiptan. Hún vill ekki sjá nema “mobil-1” al-synthetíska fjölþykktarsmótorolíu á ökutæki sitt, enda ber hún af sjer góðan þokka og er allra kvenna fegurst. Var snót þessi föst í heljarinnar snjóskafli er Ljenzherrann bar að. Rak hann upp svo stór augu er ásjónu hennar bar fyrir, að kaskeitið flaug upp í loftið, og hefir eigi sjest síðan.

Ljenzherrann vissi nú ekki hvað hann ætti til bragðs að taka og afrjeð því að gera eins og hann hafði lært í sex ára bekk. Hnoðaði Ljenzherrann stóra snjókúlu og kastaði framan í hana og svo brunaði hann á brott á honum “Rosinante” glaður í bragði.

Engin ummæli: