mánudagur, 22. mars 2004

Samkvæmi á laugardegi.
Laugardagurinn var tvískiptur, alltjent hvað Ljenzherrann snerti. Fyrir kvöldmat gerðist hann dýrlingur, gerði greiða og heimsótti ömmur og afa, en eftir kvöldmat tók fyllerí og saurlifnaður við.

Ömmur og afar eru merkileg fyrirbæri, með því einu að heimsækja þau má gæða lífi í eftirlaunaða tilveru þeirra, rjett eins og er húsbóndi klappar húsbóndahollum seppa sínum. Eitt er það sem hafa ber í huga er gamalmenni eru heimsótt en það er algerlega bannað að neita veitingum. Það myndi nefnilega ganga af hverri ömmu dauðri ef að barnabarni hennar liði svo illa að það hafi ekki lyst á randaköku og soðbrauði. Hafi viðkomandi aðili enga matarlyst, ber honum að falsa slíka og koma fyrir kökumolum í vasa sínum og 2 desilitrum, hið minnsta, af mjólk í blómapottum eður þá út um gluggann. Síðan ber að koma ömmu sinni í skilning um það, að á þessu hafi hann gert góð skil og sje pakksaddur.

Ljenzherrann heimsótti tvær ömmur þennan dag, og sakir þess hve hann er góður drengur var hann því útbelgdur af sætabrauði og öðru kruðeríi er hann gekk til fundar til fjelaga sinna á "amerikanstæl." Kom hann sakir þessa einungis niður tveim og hálfum líter af ropvatni, sem hann drekkur annars ekki. "Frírra áfyllinga ber að neyta en eigi neita", sagði Ljenzherrann ábúðarfullur á svip.

Af "amerikanstæl" var haldið í samkvæmi og gerðist þar mikið "stuð." Hámarki náði "stuðið" er halarófa hafði myndast, en jafnvel þó Ljenzherrann væri eigi fremstur hafði hann forræði algert yfir halarófunni og sá til að hún myndi veita þáttakendum sem mesta skemmtan með haganlega tímasettum beygjum og öðru þess háttar.

Eftir mikinn soll, glundur og gjamm var haldið í bæinn og í þjóðleikhússins kjallara, var þar margt furðulegra manna. Einn hinn furðulegasti var án efa "Pétur Jóhann Sigfússon" er getið hefur sjer gott orð fyrir gamanmál þau er hann fer með á öldum ljósvakans. Ljenzherrann afrjeð samstundis að fara að angra kauða og bregða sjer í hlutverks einharðs aðdáanda sem myndi bera Pétur þennan á skildi og hlæja sig máttlausan að öllu sem hann segði, burtsjeð frá hvort því væri ætlað að vera fyndið, eður ei.

Ljenzherrann kemur að Pjetri, kýlir kumpánlega á öxlina á honum og býður honum að gerast dús. Í beinu framhaldi tekur hann að hrósa honum fyrir líflegan sjónvarpsþátt, en kemst ekkert lengra því Pjetur setur upp mikla skeifu, fer í veski sitt og dregur þaðan upp "debetkort" sem á stendur skýrt og greinilega "Sigurður Valdemarsson." Bar fas og framkoma kauða þess glöggt merki að ekki væri þetta í fyrsta skipti sem honum væri kennt um að heita Pjetur Jóhann Sigfússon.

Engin ummæli: