fimmtudagur, 18. mars 2004

Ljenzherrann vaknaði nú hina síðustu nótt við ámátlegt vein er barst inn um glugga hans.

Ljenzherranum varð undir eins hugsað til þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og um allar þær mæður sem gráta allar nætur af ótta við að geta eigi fært börnum sínum það sem þeim langar til að bjóða þeim upp á.

Það fyrsta sem að Ljenzherranum grunaði var að einhver móðir sem væri úrkula vonar um að hún gæti fært barni sínu mannsæmandi líf hefði skilið það eftir í körfu undir Ljenzherrans glugga. Hún vissi að sá ágæti náungi sem hann nú er myndi koma því til menntunar og lofa því að vaxa og dafna undir sínum verndarvæng.

Ljenzherrann ljet nú hugan reika um stund og breytti vælinu sem barst innum gluggann í auðmjúka þakklætisrödd. Hann gekk í gegnum öll helstu tímamótin í lífi barnsins og þegar hann var búinn að útskrifa það úr menntaskóla reis hann úr rekkju sinni og ætlaði að líta gripinn augum.

Er hann dró gluggatjöldin frá brá honum herfilega því í stað bastkörfu með ábreiðu og orðsendingu frá örvinglaðri móður blöstu við Ljenzherranum tveir feitir kettir. Tveir feitir kettir sem stóðu á móti hvor öðrum með tveggja metra öryggisbil á milli sín. Á bakinu höfðu þeir heljarmikla kryppu og hárin stóðu út í allar áttir. Þeir horfðu ógnandi hvor á annan og skiptust á í hinu mesta bróðerni að senda hvorum öðrum tóninn.

Ljenzherranum, sem hafði hugsað svo margt fallegt um barnið sem hann bjóst við að sjá, varð mjög hverft við. Arkaði hann svo fram í þvottahús og sendi köttunum tveim blautan glaðning úr sínu stærsta vaskafati.

Hin fallega hugsun um strákpjakk í maddrósafötum hlaupandi með moggann til Ljenzherrans hvarf eins og dögg fyrir sólu. “Og mig sem vantaði einmitt körfu undir þvott” tautaði hann í skegg sjer og hjúfraði sig í dönsku gæsadúnssængina.

Engin ummæli: