miðvikudagur, 31. mars 2004

Ljenzherrann tekur köttinn undir verndarvænginn aftanverðan.
Er Ljenzherrann mætti á Þjóðarbókhlöðuna í dag skimaðist hann um eftir bókhlöðukettinum gulbröndótta, en sá hvergi. Hjelt Ljenzherrann því áfram leið sinni og var rjett nýgenginn í gegn um vopnaleitarhliðið, er hann rak augun í köttinn. Stóð hann sperrtur uppi á afgreiðsluborðinu og var á honum mikið stýri. Átti kötturinn í miklum rökræðum við starfsmann þar. Ljenzherrann læddist nær til að forvitnast um hvað málið snerist, hvort að kötturinn væri að fara fram á stöðuhækkun, loðnari mottur í andyrið, meiri kraft í hitaristina eða þægilegra trje.

Svo reyndist eigi raunin, kötturinn var að reyna að sækja um bókasafnsskírteini. Þeirri beiðni var synjað á þeim forsendum að hann væri með svo beittar klær sem fara myndu illa með dýrindis bækurnar.

Ljenzherrann má ekki til þess hugsa að traðkað sje á þeim, sem eru minni máttar. Ákvað hann því að skerast í leikinn. Ljenzherrann hefir til brunns að bera alveg sjerlega góða samningatækni, auk þess sem honum lyndir vel við menn og málleysingja, er dagfarsprúður svo tíðindum sætir, þægilegur í allri umgengni, hvers manns hugljúfi og sjerlega góður drengur.

Greip hann köttinn af borðinu kom honum fyrir undir verndarvængnum aftanverðum, en þar var svolítið pláss. Tók Ljenzherrann nú til við að tala máli kattarins, en þegar sýnt þótti að hvorki kynni hann að mjálma sæmilega aukinheldur sem enginn virtist skilja mjálmið tók hann að mæla á mannamáli.

Ljenzherrann leiddi bókavörðinn í allan sannleikann um það að þetta væri sjerlega bókhneigður köttur, auk þess sem að Ljenzherrann hefði fulla trú á því að með tíð og tíma myndi hann fara að setja saman sínar eigin bækur, en þangað til yrði hann að fá að lesa annarra.

Ljenzherrann rakti raunarsögu kattarins af mikilli innlifun og andagt. Allt frá því að slapp naumlega undan dauðanum, en systkini hans voru ekki jafn heppin, þau drukknuðu öll í pokanum. Hjelt Ljenzherrann svona áfram og dró ekkert undan. Til áhrifsauka dró hann köttinn undan verndarvængnum á vel völdum augnarblikum, klappaði honum á kollinn og gekk svo frá honum á sinn stað.

Á þriðju og fjórðu hæð gerðustu þau undur að öll borðin tæmdust því fljótt spurðist það út að sögumaður mikill væri að segja sögu niðri á annarri hæð. Meira að segja Oluv gamli Grimm tók sjer hlje frá rökræðum sínum við sjónvarpsskerma og ímyndaðar persónur, en hann hefir löngum þótt manna þaulsetnastur.

Ljenzherrann stóð í miðjum skaranum, og þeir sem höfðu eigi haft með sjer stóla krupu á knjám. Þegar hallaði á kattarins hlut í frásögninni dæsti mannfjöldinn ámótlega, en þegar kettinum var hampað brutust út fagnaðarlæti. Nokkrir voru með kattarofnæmi og gátu því eigi setið kyrrir og voru ætíð að hnerra. Ljenzherrann læknaði kvilla þeirra með að steypa þá í frauð. Sakni einhvur lesenda fjölskyldumeðlims með kattarofnæmi sem talið er að hafi getað verið í Þjóðarinnar bókhlöðu þennan dag er viðkomandi beðinn að koma og sækja ættingja sinn og hafa með sjer trillu og sendiferðabíl. Eru ofnæmispjesarnir afgreiddir á “Euro-pallettum” út um vörumóttökuna, spyrjið um Gunnar.

Loks kom á svæðið sjálfur landsbókavörður, handbendi skötunnar og vikapiltur. Púaði mannfjöldinn svo á kauða að hann sá sjer þann kostinn vænstan að veita kettinum bókasafnsskírteini. Kötturinn fær að auki naglasnyrtingu einu sinni í viku og er honum þar að auki gerður sá heiður að komið verður fyrir sandkössum á víð og dreif um þjóðarbókhlöðuna, þar sem kisi getur gert þarfir sínar. Honum ber þó að hlíta sömu reglum og aðrir hvað varðar lestur á salerninu, en slíkt er með öllu bannað.

Engin ummæli: