mánudagur, 29. mars 2004

Ljenzherrann á þriggja ára bróður og hefir hann tíðum mikið skemmtanagildi, hjer skulu nefnd nokkur dæmi.

Að venja börn á klósett reynist foreldrum oft þrautin þyngri. Ljenzherrans bróðir hóf fyrir löngu að kasta vatni í slíkt apparat og af slíkum krafti að togarasjómaður væri fullsæmdur bunu sem þessari. Þátt fyrir þetta þvertekur hann fyrir að gera þar stykkin sín stóru, en þau vill hann gera í bleyju.

Þá er komið að öðru fyndnu atriði, en pjakkurinn er harðasti samningamaður sem til er, alltjent í sambandi við bleyjur. Fyrir utan það að hafa birgðastöðu og alla felustaði á kristaltæru semur hann hvern bleyjupakkann á fætur öðrum upp úr foreldrum sínum. Helsta aðferðin sem hann beitir er sú að segja: “Bareinní vibót” og reka svo upp tvo putta, þá fallast foreldrum hans hendur, en Ljenzherrann fussar og grúfir sig aftur ofan í “Morgunblaðið”.

Þegar honum rennur blóðið til skyldunnar biður hann kurteislega um bleyju, rýkur svo inn í herbergið sitt og skellir á eftir sjer. Jafnvel þó að pjakkurinn hlaupi jafnan allra sinna erinda innan íbúðarinnar er aldrei jafn mikill á honum asinn og í þessum erindagjörðum. Að ekki sje talað um ef að afgreiðslutíminn á bleyjunni er helst til langur, en þá nær hann varla beygjunni í herbergið. Þetta þykir Ljenzherranum fyndið því púkinn þarf í raun og veru ekkert að flýta sjer, hann siglir lygnan sjó um leið og það er búið að líma bleyjuna aftur.

Þegar í herbergið kemur leggst hann á grúfu og frábiður sjer allt ónæði. Slysist Ljenzherrann þangað inn, stendur sá stutti upp og rekur þann gamla út með skömmum. Svo skellir hann eins rækilega á eftir sjer og honum er unnt og leggst aftur á fjóra til að sinna skylduverkefnunum. Fyrir forvitna má nefna að í flestum tilvikum snýr hann með höfuðið í norð-norð-austur og sjaldan er bókin “Fróði fíll heldur matarboð” langt undan.

Þegar allt er um garð gengið kemur hann skælbrosandi út og tilkynnir hverjum sem heyra vill að það hafi verið gott að kúka. Meðfylgjandi er síðan skilgreining á því hvernig kúkur var þar á ferð. Hefir hann af sjálfsdáðum komið sjer upp flokkunarkerfi og koma tvær megingerðir til greina, “boltakúkur” eða “prumpukúkur.“

Boltakúkurinn er þess eðlis að hann vill á tíðum brotna í tvo eða fleiri, fjöldi þeirra er samviskusamlega færður til bókar. Prumpukúkurinn hefir hinsvegar tilhneigingu til að gufa upp.

Engin ummæli: