mánudagur, 29. mars 2004

Ljenzherrann hefir orðið fyrir alveg hreint stórkostlegum hrekk. Hann fjekk sent heim til sín fundarboð í pósti þar sem hann er boðaður á aðalfund. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi ef að þessi aðalfundur væri ekki á vegum trjesmiðafjelags Reykjavíkur. Hver skyldi hafa skráð hann í þetta fjelag?

Ef til vill hefir það spurzt út hve flinkur hann sje með hamarinn og af hve mikilli fimi hann beitir söginni eða að natnin sem hann sýnir sandpappír og heflum eigi sjer helst samsvörun í því þegar nýbökuð móðir nostrar við afkvæmi sitt.

Eða kanski þeir hjá trjesmiðafjelagi Reykjavíkur hafi einfaldlega lesið Ljenzherrans færslu frá 28. desember 2003 og fallið í stafi yfir því hve hann fer fjálglega með orð og dulnefni sem þeir smiðirnir hafa yfir hina ýmsu hluti.

Ljenzherrann mun nú birta hluta af þessari gömlu færslu.

“Ein sex”, “batningar”, “doki” Er Ljenzherrann farinn að tala tungum?-Nei, hann er einungis að slá um sig með bransamáli. Til að atvinnuveitandann gruni ekki að hann hafi keypt köttinn í seknum og uppgötvi eigi að“Lausn allra hans vandamála” sje honum ekkert annað en höfuðverkur og plága gengur Ljenzherrann á milli manna og á við þá samtöl þar sem hann treður slíkum orðum inn hvar sem hann getur.

“Ég var að rífa dokaflekana af steypunni í gær, heldurðu að knektin hafi ekki bara oltið um koll, það hefir einhver neglt batningana með treitommu þar sem þurfti fírtommu!”
-“Uh... já.. var það?...”
“Það gengur ekki að slípa geirneglda “ein-sex” á dregara með P-120, betra að byrja með P-80, alls ekki fínna, annars er ekki hægt að bæsa þær, maður hefur nú lent í því í gegnum tíðina maður..að geta ekki bæsað. Nei sko bara með “De Walt” geirungasög, góður á því! Skrambi góður hamar sem að þú ert með, ég er einnig Estwing-maður, Bond notar “Walther PPK” en við notum Estwing! Hvað er þinn þungur?
-“uh... ég bara veit það ekki”
“Má ég sjá...Já ertu með 250 gramma útgáfuna, alger SLEGGJA!! þeir tíðkast nú hinir þungu hamrar, ha? Fyrr má nú aldeilis reka en kafreka! Kafreka “Gunnebo” naglana í “Mahogny” kanski ha? Þeir klikka ekki naglarnir frá “Gunnebo”! Nú jæja... “Hitachi-koki” batterísvjel... finnst þér “torx” betra en stjörnuskrúfur og “phillipshead”?, sko stjörnuskrúfurnar voru bylting á sínum tíma en “torx” maður!!!! Alger bylting! Fer ekki ofan af því!, ég svaf varla fyrir spenningi fyrstu vikurnar eftir að þetta kom, dásamlegar skrúfur allveg hreint, ljetta mönnum lífið þessar skrúfur, mönnum sem skrúfa mikið, eins og ég og... náttúrulega þú”
-“uh... ég þarf eiginlega að fara og gera svolítið..”
“Allt í lagi fjelagi.. dahhh. uuushhh(innsog um samanbitna kjálka en opnar varir).., ég fer þá bara að smíða eitthvað, eins og ég kann og get...... að smíða, það kann ég, já og sei sei................ÉG ER SMIÐUR!!!!!!!!!!!!!!”

Engin ummæli: