föstudagur, 5. mars 2004

Akademískum Ljenzherran bjargað fyrir horn
Ljenzherrann er því ákaflega feginn að á menntaskólaárum hans, er hann var ungur og óharðnaður, voru sjer klósett fyrir nemendur og kennara. Á þeim tíma þótti honum þetta pjatt, en enginn veit hvað átt hefir fyrr en misst hefir. Það er hreint ekki gaman að verða vitni að því er háæruverðugur lærifaðir, fyrirmynd manns og guðleg persóna, situr á næsta klósetti og spýtir útúr sjer dellunni með miklum látum og viðeigandi lykt. Hefði slíkt hent Ljenzherrann á mótunarskeiði sínu, að heyra mennina sem vissu allt og kunnu allt, gera eitthvað þessu líkt, hefði hinn akademíski Ljenzherra liðið undir lok og í stað hans hefði komið hinn bitri Ljenzherra sem er drykkfelldur vörubílsstjóri sem lemur konuna sína og börnin. Guði sje lof fyrir aðskyld klósett í menntaskólum.

En eins og það sje ekki nógu slæmt að verða fyrir því að heyra í lærimeisturum sínum á auðmjúkum stundum, er ekkert sem getur veitt viðunandi líkn gegn því að rekast á þá bera í sturtum. Ljenzherrann iðkaði í eina tíð eksersísur sjer til heilsubótar í “heimsklassanum” svonefnda og þar, einn góðan veðurdag, mætti hann “Ása-blinda” þýzkukennara á evuklæðunum.

Þeir sem vita hver kauði er eru nú fullir samúðar en Ljenzherrann fraus eins og köttur sem hefir sjeð risastóran hund. Hann rankaði sem betur fer fljótt við sjer og skaust í hvarf. Til allrar hamingju var bóhem Ásmundur eigi með gleraugun sín þannig að Ljenzherrann gat laumast fram hjá honum ósjeður. Má hjer ef til vill finna skýringar á undarlegri hegðan og atferli Ljenzherrans en þetta er tvímælalaust einn af þeim atburðum sem hafa markað líf hans æ síðan og greitt veginn fyrir andúð hans á þýzkri tungu, en Ljenzherranum leið ætíð illa í þýzkutímum eftir þetta.

Engin ummæli: