þriðjudagur, 17. febrúar 2004

Síðastliðinn laugardag heiðraði Ljenzherrann af Kaffisterkt samkvæmi nokkurt með nærveru sinni. Sýndu gestir Ljenzherranum þann sóma að angra hann ekki þótt frægur og æðislegur væri og því gat Ljenzherrann sprangað um að vild innan um almúgann.

Þar sem Ljenzherrann hafði tekið hressilega á því kveldið áður afþakkaði hann allt það áfengi sem honum var boði en þáði þó kaffi, Ljenzherrann er alltaf til í kaffi.

Ljenzherrann fjekk sjer bolla og tók að spóka sig um. Þó í samkvæminu væri margt knárra sveina og fagurra meyja vakti köttur nokkur mesta athygli Ljenzherrans. Kvikyndi það sat makindalega við útidyrahurðina og sleikti þar sitt allra heilagasa í allra viðurvist. Jafnvel þó að mikil umferð væri um útidyrnar hafði það engin áhrif á kisa, hann grúfði sig bara ofan í skaut sitt og naut hvers andartaks.

Það var ekki fyrr en innum dyrnar skaust maður nokkur, s svartklæddur, með hatt og stórt gítarkoffort að kötturinn sýndi einhver viðbrögð. Þá reis hann upp úr klofi sínu í fyrsta skiptið allt kveldið og tók að snusa tryllingslega út í loftið. Hann rauk svo af stað en gat þó eigi stillt sig um að veita sjer eina eða tvær strokur áður. Kötturinn rauk á eftir þeim svartklædda rjett eins og hann hefði heyrt eiganda sinn opna dós af gómsætum og safaríkum túnfisk og skottið sveiflaðist eins og hann ætti einnig von á rjóma.

Svartklæddi maðurinn staðnæmdist inni í stofu og opnaði gítarkoffortið, dró úr gítar og reykelsi. Ábúðarfullur kveikti hann á reykelsinu og tók til við að stilla strengi sína. Kötturinn fylgdist spenntur með, enda áhugamaður um músík.

Ljenzherrann fór fram í eldhúsið að bæta á kaffið sitt en það hafði verið bruggað í “Mocca master” kaffivjel og því fyrsta flokks. Þegar Ljenzherrann sneri aftur til stofunnar voru græjurnar þagnaðar en gítarspil og söngur komnar í þeirra stað.

Allir sem einn sungu með sem í leiðslu og ekkert virtist trufla þann svartklædda nema þá helst kötturinn sem sveimaði í krindum hann, þefandi og sleikjandi með tungunni sem hafði verið honum svo góð, örskömmu áður. Þeim svartklædda virtist standa mikill stuggur af kettinum enda mátti hann hafa sig allan við að stugga honum frá sjer.

Ljenzherranum þótti þetta hinsvegar hin besta skemmtan enda vissi hann hvar kötturinn hafði haft tungu sína og í hvaða erindagjörðum. Hinsvegar fór Ljenzherranum fljótt að leiðast þófið enda er honum ætíð afskaplega illa við það að vera eigi fagnaðarhrókur númer eitt.

Til að láta hinn svartklædda eigi njóta allrar athyglinnar tók Ljenzherrann upp á því að garga brandara og skrítlur á milli laga, en engin viðbrögð fjekk hann. Hann ákvað því að spila út trompi sínu, af fenginni reynslu vissi Ljenzherrann að ekkert gerði betri lukku í teitum en að fara í “hókípókí.”

En allt kom þó fyrir ekki, Ljenzherranum fæddist þó falsvon í brjósti er hinn svarti lagði frá sjer gítarinn. Hrósaði hann þá happi, hrópaði nokkrar skrítlur um Hafnfirðinga og stakk enn og aftur upp á “hókípókí.” Einu viðbrögðin sem hann fjekk var skítugt glott frá þeim svartklædda sem hann sendi yfir stofuna á leið sinni að flyglinum sem lúrði þar rykugur í einu horninu.

Þegar hinn svartklæddi hafði hagrætt sjer við flygilinn hjelt hann áfram þar sem frá var horfið og allir fylgdu með.

Ljenzherrann var nú á barmi sturlunnar, það var honum ofviða hve mikla athygli þessi aðili fjekk, svo mikla að enginn fjekkst til að fara í “hókípókí.”

Ljenzherrann stóð nú sem frosinn utan það að varir hans titruðu sakir illra hugsanna. Á endanum gekk hann að flyglinum og jós kaffi úr bollanum yfir þann svartklædda.

Óhrifin voru ólýsanleg, það var sem sýru hefði verið skvett á hann, hann lagðist í gólfið og engdist sundur og saman með sogum og smellum. Í öllum asanum duttu af honum svörtu gleraugun og augun blöstu við, svört á stilkum.

Ljenzherrann var ekki lengi að átta sig og dró upp kuta sinn. Hann stakk honum á bólakaf í eyrað á þeim svarta og sneri honum hálfhring. Smellur heyrðist og vatn fossaði yfir stafaparketið og ísbjarnarfeldinn á gólfinu. Brátt rifnuðu svörtu fötin og líkaminn opnaðist í öllu sínu veldi og við blasti:

“SKATAN!!! ÆTLAÐIRÐU AÐ NÁ Í SKOTTIÐ Á OKKUR ÓDÁMURINN ÞINN!!”

öskraði Ljenzherrann og bað um að sjer yrði fært kaffi. En hvergi kom kaffi þannig að hann öskraði aftur og nú af lífs og sálarkröftum.

“KAFFI!!!! KAFFI!!! FÆRIÐ MJER KAFFI ÓNYTJUNGARNIR YKKAR!!!

Engin viðbrögð fjekk hann heldur við þessari ósk þannig að hann reis upp frá erkióvini sínum, skötunni, og leit í kringum sig. Allir gestirnir höfðu dottið útaf þar sem þeir höfðu staðið eða setið, þar af einn á eldavjelina.

Ljenzherrann öskraði af bræði, greip í halann á skötunni og sveilfaði henni nokkra hringí í kringum sig. Svo hljóp hann með hana í eftirdragi upp stigann og kötturinn fylgdi á eftir.

Þegar upp var komið skyldi Ljezherrann skötuna eftir bjargslausa á flókateppinu en skaust inn á bað og ljet renna í karið kald vatn, Henti hann svo skötunni ofan í, signdi sig þrisvar og braut svo baðhurðina af stöfunum og setti hana yfir baðkerið svo skatan gæti ekki flúið.

“Í nafni alls þess sem er fallegt!!!”

Öskraði Ljenzherrann og hljóp niður. Þegar þangað var komið tók hann úr pússi sínum poka nokkurn sem bar áletrunina “KAFFISTERKT.” Á meðan Ljenzherrann sturtaði innihaldinu í kaffivjelina mátti sjá á svip hans að hann sá á eftir hverju korni, því kaffisterkt er sælkeradrykkur og því miður eina kaffið sem er nógu sterkt til að vekja fórnarlömb skötunnar aftur til lífsins þegar þau eru orðin svona langt leidd.

Kaffivjelin stundi og bljes og loks tók að renna ofan í könnuna vökvi nokkur sem líkastur var tjöru, ef þá nokkru. Ljenzherrann helti þessum eleksír í bolla og náði sjer í teskeið. Gekk hann svo á milli og skammtaði tvær skeiðar upp í hvern og einn.

Viti menn, brátt tóku lukt augun að opnast, geispar tóku við af hrotum og fyrr en varði voru allir gestirnir farnir að nudda á sjer augun. Ljenzherrann horfði hugfanginn á þessa sjón og kímdi andartak, en ekki lengi. svo skóflaði hann síðusta dreitlinum af Kaffisterkt upp í sig og hjelt upp til að gera upp sakirnar við skötuna.

Þegar upp var komið brá Ljenzherranum í brún, hurðin sem hann hafði lagt yfir baðkarið lá út á miðju gólfi og þegar hann gægðist ofan í karið var þar engin skata, skatan hafði sloppið og kötturinn með.

Engin ummæli: