sunnudagur, 22. febrúar 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt; til í knallið.
Síðastliðið föstudagskveld var haldin árshátíð verkfræðinema, fór hún fram á Hótel Örk. Ljenzherrann mætti þar upp úr hálf þrjú ásamt fylgdarliði sínu og heimtaði forsetasvítuna. Forsetasvítan reyndist upptekin en hinsvegar sagðist hótelmennið eiga lausann alveg anzi hreint huggulegan kústaskáp.

Í stað forsetasvítunnar fjekk Ljenzherrann því að dúsa við annan mann í kústaskáp og máttu þeir því búast við að sofa í lóðrjettri stellingu, til þess kom þó eigi. Þar næst þurftu sveinar að undirbúa skemmtiatriði sitt, en þá þurfti í hinni mestu leynd að að koma fyrir girni og ýmsum ósýnilegum búnaði. Seinna um kveldið var svo hin mesta skemmtun að fylgjast með öllum þeim sem áttu leið um sviðið og þurftu að beygja sig í sí og æ af ósýnilegri ástæðu.

Að sjálfsögðu laugaði Ljenzherrann sig og fjekk sjer nokkrar salíbunur í rennibrautinni. Heiti potturinn naut að sjálfsögðu mikilla vinsælda en undir lokin var vatnið í honum orðið gult af ógeði, mannaseiðið var orðið frekar þykkt. Er Ljenzherrann fór upp úr mætti hann svo kokkinum sem var á leiðinni að ná sjer í soðkraft í humarsúpuna.

Borðhaldið gekk snyrtilega fyrir sig og ber Ljenzherrann þeim sem lögðu leið sína í heitapottinn sínar bestu þakkir fyrir ágæta humarsúpu. Að borðhaldi loknu var komið að skemmtiatriðunum og þar ljetu Ljenzherrann og fjelagar sitt ekki eftir liggja. Skemmtiatriðin voru samin í miklu flippi.

Ljenzherrann hóf leikinn og flautaði snák upp úr íþróttatösku sinni, Ljenzherrann gerði þetta af mikilli innlifan og skaust um sviðið að hætti trjónukrabba, en slík dýr geta sakir nátúru sinnar eigi gengið fram og aftur og verða því að láta sjer nægja að skjótast til hægri eður vinstri, eftir því hvurnig liggur á þeim. Þegar allt loft var úr Ljenzherranum hrundi hann aftur fyrir sig og snákurinn með.

En dýrðinni var hvergi nærri lokið, nú kom dansatriði mikið þar sem piltar sýndu samhæfða dansa við hin ýmsu lög. Þar ljek Ljenzherrann á hljómborð og skein frægðarsól hans hæst er hann hoppaði inn á sviðið í hetjukafla í laginu og uppskar píkuskræki og talsvert af undirfatnaði kvenna.

Að atriðinu loknu tók við allsvæsið fyllerí sem stóð fram á rauðan morgun og vakti þar Ljenzherrans græjubakpoki mikla lukku. Þó bakpokinn sem slíkur sje magnað fyrirbæri heldur hann ekki uppi stemningunni einn og sjer, hann þarf góða tónlist til að allt gangi upp. Þar kom Hemmi Gunn sterkur inn, en lög hans "Einn dans við mig", og "Út á gólfið" voru spiluð oftar en einu sinni og oftar en fimmtíusinnum. Virtust menn alls ónæmir fyrir því að hafa heyrt lögin milljón sinnum þetta sama kvöld því alltaf vöktu þau lukku og allir sungu með: "ég var á leið á ballið, til í knallið ... .. . .. ég er einn í kvöld.... úúúú ííí í í úúúú einn dans við mig.."

Fylleríið var all svæsið og er sambýlismaður Ljenzherrans í kústaskápnum vildi fá að fara að leggja sig í annarri hillunni og bað um lykilinn varð Ljenzherrann afar hneikslaður. Honum fannst piltur fara fram á full mikið þar sem Ljenzherrann vissi ekki einu sinni um jakkann sinn og mátti þakka fyrir að vera í brókinni.

Ljenzherrann hafði einnig tekið með sjer gítar, gítar þessi átti mikilli lukku að fagna og fór á mikilfenglegt flakk eftir að eigandinn var farinn að sinna öðrum skyldum, svo sem að leita að jakkanum sínum eða fela lykilinn að kústaskápnum. Þegar farið var að grennslast fyrir um gítarinn þurfti að rekja slóð hans, en eftir margar vísbendingar fannst hann loksins og var að gera sjer dælt við fagra mær sem strauk háls hans og fitlaði við strengina.

Ljenzherrann kallaði ósjaldan til hótelmenni til að opna kústaskápinn. Lykillinn skilaði sjer svo að lokum, en hann hafði verið á sumbli alla nóttina og látið stinga sjer inn í margar raufar sem ætlaðar eru öðrum lyklum, bölvaður melurinn. Þó svo að lykillinn væri kominn í leitirnar ljet Ljenzherrann opna fyrir sjer herbergið einu sinni til, sjálfum sjer til afþreyingar.

Klukkan sjö um morguninn barst Ljenzherranum til eyrna að morgunmatur yrði framreiddur eftir eins og klukkustund, og eftir það varð ekki aftur snúið, í morgunmatinn skyldi hann fara og hana nú. hálftíma síðar hafði skatan náð að yfirbuga hann, en hann raknaði við sjer um tólfleitið í fullum viðhafnarbúning og á stól skammt undan hvíldi jakkinn hans.

Grunar Ljenzherranum að skatan hafi sent sjálfa til Hveragerðis með pósti, en hún passar ágætlega ofan í umslög og flatbökukoffort.

Engin ummæli: