föstudagur, 6. febrúar 2004

Ágrip af salernissiðum mannskepnunnar.
Það virðist greftrað inn í mannskepnuna að hún geti eigi hægt sjer án þess að lesa eitthvað. Sjampóbrúsar, tannkremstúpur, þvottaefniskassar, dagblöð, tímarit auglýsingabæklingar frá Rúmmfatalagernum, Hagkaup og BT; allt er hey í harðindum og alltaf þegar Ljenzherrann kemur inn á framandi stað læðist hann inn á baðið, setur á sig gúmhanzka og rannsakar hvað fólk lesi á kamrinum.

GSM-byltingin var sem himnasending fyrir þá allra eirðarlausustu, ekki nóg með að geta leikið “snákinn” eru þessar mínútur einnig nýtanlegar í að semja smáskilaboð eða hringja í þá vini og vandamenn sem hugurinn leitar til þegar buxurnar eru á hælunum. Í slíkum símtölum þykir kurteisi að hósta lítillega til að fela mesta gusuganginn.

Ekki bregðast þó allir jafn vel við símtölum sem þessum og hinar viðkvæmustu sálir skella hreinlega á ef að þeir heyra “plúbbs” eða grunsamlega mikið bergmál hinum megin á línunni.

Það var eitt sinn að þannig stóð á að Ljenzherranum varð svo brátt í brók að hann gat eigi að gripið með sjer moggann eða Elko-bæklinginn, ekki einu sinni sjampóbrúsa náði hann að grípa úr sturtunni og mátti hann í raun og veru þakka fyrir að ekki yrði stórslys.

En þarna sat hann og leið afar illa að þurfa að sitja og bíða þess sem verða vildi án þess að hafa eitthvað til að lesa. En forsjónin var honum í hag, á gólfinu var spánýr pakki af “Andrex” salernispappír. Ljenzherrann grípur gæsina og fer að velta henni fyrir sjer.

Þarna las hann sig til um það að “Andrex” væri þriggja laga, sjerdeilis mjúkur en þó sterkur. Það að vera sterkur er afar góður kostur fyrir salernispappír, en þá rifnar hann ekki auðveldlega, með tilheyrandi sóðaskap. Einnig var frá því greint að til væri pappír með “Aloa Vera” og fögrum orðum farið um hann sem himnasendingu fyrir rassgatið. Ljenzherrann las áfram en rak í rogastanz því neðst á pakkanum stóð skýrt og greinilega “By appointment to her Majesty the Queen”!

Með því einu að fylgjast með þessum stimplum getur maður komist að ýmsu um neyzluvenjur Brezku drottningarinnar. Silfurskeiðarnar fægir hún með “Silvo”, “Kelloggsið” sitt sykrar hún með “Tate & Lyle” sykri og skeinir svo konungborinn afturendann með “Andrex” þegar hún skilar því af sjer. Ljenzherranum þykir reyndar líklegt að hún geri ekkert af þessu sjálf, dekurrófan atarna.


Ljenzherranum hefir alltaf þótt sjerstakur hátíðarbragur yfir sykurmolunum frá “Tate and Lyle” en eftir að hann rak augun í það að sjálf bretadrottning bóni á sjer afturendann með samskonar tvisti og hann sjálfur ljómar hann allur af kæti.

Í Buckinghamhöll er ekki í kot vísað og því eigi líklegt að hún lúri á “Andrex” eins og ormur á gulli, heldur sýni gestkomandi hefðarfólki einnig þá sjálfsögðu kurteisi að leyfa þeim að skeina sig með samskonar pappír og eykur það enn á Ljenzherrans ánægju. Honum er huggun í því að njóta að einhverju leiti sama atlætis og þetta hefðarfólk, þó svo að það sje einungis á bossanum.

Reyndar hefir Ljenzherrann heyrt því fleygt að hinir allra tignustu fái jafnvel að deila með henni rúllu, en þá gengur þjónn milli manna með rúlluna á silfurfati, rífur niður og skammtar eftir því sem þurfa þykir.

Ljenzherranum af Kaffisterkt nægir að ljúka aftur augunum og þá sjer hann fyrir sjer settlegan brezkan bryta í smóking sem mælir:

“Kæri Ljenzherra, drottningunni þætti vænt um ef þjer skeinduð yður af sömu rúllu og hún.”

Engin ummæli: