mánudagur, 9. febrúar 2004

Enn af rafgirðingum og einfeldningum.
Fyrst Ljenzherrann er á annað borð farinn að rifja upp svik sín og pretti varðandi rafgirðingar ber að nefna eitt atvik til.

Þannig vildi til að í Þverárhlíðinni voru tveir bæir á svo til sama stað, báru þeir hið sama nafn en voru tölusettir til aðgreiningar. Fyrirkomulag sem þetta er algengt víða um land til dæmis í Austur-Landeyjum en það er nú önnur saga.

Mikill samgangur var á milli bæjanna tveggja og iðkuðu piltar glímu og knattleiki kveldin löng. Leikurinn var allur í hinu mesta bróðerni háður en þó spöruðu piltar hvergi við sig. Milli harðra rimmanna bljesu piltar mæðinni og höfðu ofan af sjer með því að segja skopsögur eða kveða limrur.

Eitt kveldið kveður Ljenzherrann sjer hljóðs og heldur mikla og langa ræðu um dásemdir þess að míga á rafmagnsgirðingar. Hann hefði lesið í frægum bókum að slíkt væri iðkað víða í hinni miklu Evrópu. Leikir sem lærðir menn raða sjer þar meðfram öllum rafgirðingum og láta úr sjer leka í hinu mesta bróðerni, bændum til armæðu en æruprýddum frúm til mikillar skelfingar. Eins væri sú knæpa í hinni miklu Parísarborg vandfundin sem væri svo aum, að ekki væru salerni hennar umvafin rafmagnsgirðingum og væri slíkt að ganga af pútnahúsunum dauðum.

Sjálfur kvaðst Ljenzherrann hafa allan hug á að reyna þetta, en eigi gefist tími til vegna anna. Hann sagðist þó fullviss að þegar til þess kæmi yrði eigi aftur snúið, þá myndi hann leggjast í djúsþamb og eyða sínum frítíma með kúnum, mígandi á girðinguna þeirra.

Ræðu þessa hafði Ljenzherrann haldið ofan af gömlum mjólkurbrúsa, en við hann notuðust piltar sem pontu er þeim lá mikið á hjarta.

Sívert vinur okkar Seppason var einn þeirra er á þetta hlýddu, en sakir fyrri reynslu sinnar af rafgirðingum ljet hann þó eigi freistast.

Tveim dögum eftir brúsaræðuna miklu kemur piltur nokkur af hinum bænum afar ábúðarfullur til Ljenzherrans og biður hann að finna sig úti í hlöðu eftir mínútur fimm.

Ljenzherrans mætir til fundarins með mikilli leynd og hittir þar pilt. Piltur segir Ljenzherranum að hann hafi látið freistast og prófað að hafa ofan af sjer að hætti manna í hinni miklu Evrópu, en ekki kunnað að meta.

“Þú ert nú líka bara fávís sveitalubbi, hafðu þetta!!” Sagði Ljenzherrann og sló hann utanundir fyrir, í þetta skiptið náði Ljenzherrann eigi að halda andliti sínu skilningsríku.

Þess má til gamans geta að hland leiðir rafmagn með stakri prýði.

Engin ummæli: